Kínverjar sendu Joe Biden, nýkjörnum forseta Bandaríkjanna, hamingjuóskir með kjörið í dag. Biden hefur unnið Arizona fylki og þannig tryggt sér 290 atkvæði kjörmanna.

Hamingjuóskum hefur rignt yfir Joe Biden og Kamölu Harris frá því að fjölmiðlar vestanhafs lýstu yfir sigri þeirra í síðustu viku. Katrín Jakobsdóttir var meðal þjóðarleiðtoga sem óskuðu Biden til hamingju þann 7. nóvember en Vladimir Putin, forseti Rússlands, og Xi Jinping, forseti Kína, sáu ekki sinn hag í því að tjá sig um sigurinn á nokkurn hátt.

Fréttaveitan AP News greinir frá því að Wang Wenbin, einn talsmanna utanríkisráðuneytis Kína, hafi lýst því yfir að yfirvöld í Kína virði val bandarísku þjóðarinnar.

„Við óskum herra Biden og fröken Harris til hamingju,“ sagði Wenbin.

Rússar hafa enn ekki tjáð sig um sigur Biden en CBS News hefur eftir heimildum sínum aðPutin muni ekki senda frá sér tilkynningu á meðan Donald Trump Bandaríkjaforseti véfengir úrslit kosninganna.