Kín­verskur dóm­stóll í Li­a­oning héraði hefur neitað á­frýjunar­beiðni Kana­da­búa sem var árið 2019 dæmdur til dauða fyrir fíkni­efna­smygl en frá þessu er greint á vef New York Times. Kanadísk yfir­völd hafa gagn­rýnt kín­versk yfir­völd harð­lega vegna málsins en á­kvörðunin er til marks um versnandi sam­band Kanada og Kína.

Að mati dóm­stólsins var dómurinn rétt­lætan­legur og réttar­höldin lög­leg en Hæsti­réttur Kína mun síðan fara yfir dóminn, líkt og alltaf er gert þegar um dauða­refsingar er að ræða. Kanadísk yfir­völd segja dóminn aftur á móti ó­mann­úð­legan og hafa kallað eftir því að Hæsti­réttur endur­skoði málið.

Talið var nánast öruggt að dóm­stóllinn myndi hafna beiðninni en maðurinn, Robert Lloyd Schellen­berg, var upp­runa­lega dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir smygl á 220 kílóum af am­feta­míni. Tveir aðrir menn frá Kanada hafa einnig verið dæmdir til dauða frá árinu 2019 fyrir fíkni­efna­smygl.

Dómurinn þyngdur eftir að yfirmaður Huawei var handtekinn

Dómur hans var þyngdur eftir ný réttar­höld árið 2019, mánuði eftir að kanadísk yfir­völd hand­tóku fjár­mála­stjóra kín­verska fjar­skipta­fyrir­tækisins Huawei, Meng Wanzou.

Eftir hand­töku Meng voru tveir Kanada­menn, Michael Kovrig, fyrr­verandi erind­reki, og Michael Spavor, at­hafna­maður, hand­teknir fyrir njósnir og bíða nú dóms í þeirra máli. Dominic Barton, sendi­herra Kanada í Kína, mun ferðast til kín­versku borgarinnar Dandong í dag þar sem á­ætlað er að dómur yfir Spavor verði kveðinn upp á morgun.

Meng var látin laus gegn tryggingu og dvelur nú í Kanada og berst við fram­sals­beiðni frá Banda­ríkjunum vegna fjár­svika. Lög­menn Meng hafa haldið því fram að hand­taka hennar hafi verið brot á stjórnar­skrár vörðum mann­réttindum hennar.