Stjórnvöld í Kína hafa mildað sótvarnareglur í tilteknum hverfum í sjálfstjórnarhéraðinu Xinjiang vegna fjöldamótmæla sem hafa staðið yfir í borginni Urumqi og víðar undanfarna daga.

Mótmælin ágerðust eftir að tíu manns létust í eldsvoða í íbúðablokk í Urumqi á fimmtudaginn. Kínverjar á samfélagsmiðlum telja margir hverjir að strangar sóttvarnareglur borgarinnar hafi hindrað skilvirk viðbrögð slökkviliðssveita við eldsvoðanum og erfiðað íbúum blokkarinnar að sleppa út um glugga hennar.

Talið er að flestir þeirra sem létust í eldinum hafi verið Úígúrar, sem eru meirihluti íbúa í Xinjiang.

Stjórn Xi Jinping forseta hefur haldið svokallaða „núllstefnu“ í kórónuveirufaraldrinum sem felur í sér strangar lokanir og útgöngubönn. Aukin útbreiðsla Covid-19 með ómíkron-afbrigðinu frá því í fyrra hefur reynt mjög á þolrif þessarar stefnu og hefur leitt til mótmæla í sumum kínverskum borgum, en mótmæli eru afar fátíð þar í landi.

Stjórnin hefur beitt harkalegum aðferðum til þess að framfylgja útgöngubanni í sumum hlutum Kína. Frá Urumqi hafa meðal annars borist fréttir um að hurðum fólks sé læst með keðjum.

Alls var tilkynnt um 32.000 Covid-smit í Kína í dag, sem var í þriðja sinn á jafnmörgum dögum sem dagsmet í fjölda smita var slegið.

„Það er í lagi að loka borginni, en það er ekki í lagi að loka brunaútgangnum,“ hafði Financial Times eftir einum af mótmælendunum í Urumqi.