Rannsóknarteymi frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO er komið til Kína til að rannsaka upphaf COVID-19 faraldursins. Rannsóknin hefur lengi staðið til en kínversk stjórnvöld dregið lappirnar og gert ýmislegt til að tefja framgang hennar. Nú síðast var tveimur meðlimum rannsóknarteymisins meinuð innganga í landið þar sem þeir greindust með mótefni eftir COVID-19 smit.
Allir meðlimir rannsóknarteymisins fóru í COVID-19 próf í heimalöndum sínum áður en þeir lögðu af stað til Kína og greindust þá tveir með mótefni. Samkvæmt kínverskum reglum mega þeir sem greinast með mótefni ekki fara til landsins. Þeir tveir sem greindust með mótefni var meinað að ferðast til Kína frá Singapúr.
Þeir sem fengu að ferðast síðasta spölinn frá Singapúr eru komnir til borgarinnar Wuhan, þar sem faraldurinn er talinn hafa brotist fyrst út í lok árs 2019. Þar er það í tveggja vikna sóttkví sem er skylda fyrir alla sem ferðast til Kína en er þegar byrjað að ræða við kínverska kollega sína gegnum fjarfundarbúnað.
Talsmaður kínverskra yfirvalda sagði fyrr í vikunni að teymið myndi ræða við kínverska vísindamenn en sagði ekki hvort því yrði heimilt að ráðast í sjálfstæða gagnasöfnun. Meðal meðlima rannsóknarteymisins eru veirufræðingar, matvælaöryggisfræðingar og aðrir sérfróðir frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Rússlandi og fleiri löndum.
Áður höfðu kínversk stjórnvöld frestað komu teymisins um viku, eftir tæplega árs samningaviðræður við WHO um hvort hleypa ætti því inn í landið til að freista þess að komast til botn í því hvernig kórónuveirufaraldurinn hófst. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur verið gagnrýnd fyrir að ganga erinda Kínverja og var sú gagnrýni einkum hávær á fyrri hluta síðasta árs.

Á þriðjudaginn varð fyrsta andlátið af völdum COVID-19 í Kína síðan í maí og er það dauðsfall númer 4635 í landinu síðan faraldurinn hófst. Dauðsfallið varð í Hebei-héraði þar sem fjöldi smita hefur greinst að undanförnu og samkomutakmörkunum komið á sem taka til tug milljóna íbúa. Kínverskir ríkismiðlar hafa undanfarið gert að því skóna að faraldurinn hafi átt upptök sín utan landsteinanna sem er þvert á þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um upphaf hans sem varð í borginni Wuhan.