Jiang Zemin, fyrrum for­seti Kína, var kvaddur af sam­löndum sínum við minningar­at­höfn sem haldin var í Peking í gær. At­höfnin var sýnd í ríkis­sjón­varpi og víðs vegar var efnt til þriggja mínútna þagnar í heiðurs­skyni.

Jiang tók við völdum í Kína eftir að mót­mæli á Torgi hins himneska friðar voru bæld niður árið 1989. Hann hafði leitt kín­versku þjóðina í gegnum ýmsar efna­hags­um­bætur og sá meðal annars um af­hendingu Hong Kong frá Bretum til Kín­verja.

Sam­kvæmt kín­verska kommún­ista­flokknum þá lést fyrrum for­setinn seinasta mið­viku­dag af völdum hvít­blæðis 96 ára gamall.

Flokksmenn taka á móti líkkistu Jiang á Xijiao flugvellinum í Peking, en hann lést í Shanghai 30. nóvember sl.
EPA

Xi Jin­ping, for­seti Kína, flutti rúm­lega klukku­tíma ræðu í minningar­at­höfninni þar sem hann lofaði for­ystu fyrrum sam­starfs­fé­laga síns. Hann sagði hann hafa sýnt mikið hug­rekki við að taka djarfar á­kvarðanir á mikil­vægum augna­blikum.

Jiang Zemin kom meðal annars í opin­bera heim­sókn til Ís­lands árið 2002, en sú heim­sókn var afar um­deild sökum mann­réttinda­brota sem kín­verska ríkið sýndi iðk­endum Falun Gong á þeim tíma. Icelandair meinaði meðal annars far­þegum með kín­verskum nöfnum að fara um borð í flug­vélar sínar til að sporna við mögu­leg mót­mæli á Ís­landi og þeir iðk­endur sem voru þegar komnir til landsins voru sendir í Njarð­víkur­skóla sem þeim var haldið af lög­reglu.