Jiang Zemin, fyrrum forseti Kína, var kvaddur af samlöndum sínum við minningarathöfn sem haldin var í Peking í gær. Athöfnin var sýnd í ríkissjónvarpi og víðs vegar var efnt til þriggja mínútna þagnar í heiðursskyni.
Jiang tók við völdum í Kína eftir að mótmæli á Torgi hins himneska friðar voru bæld niður árið 1989. Hann hafði leitt kínversku þjóðina í gegnum ýmsar efnahagsumbætur og sá meðal annars um afhendingu Hong Kong frá Bretum til Kínverja.
Samkvæmt kínverska kommúnistaflokknum þá lést fyrrum forsetinn seinasta miðvikudag af völdum hvítblæðis 96 ára gamall.

Xi Jinping, forseti Kína, flutti rúmlega klukkutíma ræðu í minningarathöfninni þar sem hann lofaði forystu fyrrum samstarfsfélaga síns. Hann sagði hann hafa sýnt mikið hugrekki við að taka djarfar ákvarðanir á mikilvægum augnablikum.
Jiang Zemin kom meðal annars í opinbera heimsókn til Íslands árið 2002, en sú heimsókn var afar umdeild sökum mannréttindabrota sem kínverska ríkið sýndi iðkendum Falun Gong á þeim tíma. Icelandair meinaði meðal annars farþegum með kínverskum nöfnum að fara um borð í flugvélar sínar til að sporna við möguleg mótmæli á Íslandi og þeir iðkendur sem voru þegar komnir til landsins voru sendir í Njarðvíkurskóla sem þeim var haldið af lögreglu.