Kínverjar tilkynntu í dag að þeir myndu verja 300 milljónum kínverskra júana, eða andvirði um 6.200 milljóna íslenskra króna, í neyðarhjálp fyrir Pakistan, þar sem þúsund eru látin og milljónir hafa orðið fyrir tjóni eða hrakist frá heimilum sínum vegna hamfaraflóða síðasta mánuðinn. Áður höfðu Kínverjar boðið Pakistönum andvirði um 2.000 milljóna í neyðarhjálp.

Að minnsta kosti 1.265 andlát hafa verið staðfest vegna flóðanna í Pakistan og ríkisstjórn landsins hefur biðlað til alþjóðasamfélagsins um neyðarhjálp handa fólkinu sem hefur orðið fyrir tjóni vegna hamfaranna og til að afstýra frekari dauðsföllum. Skemmdirnar eru gríðarlegar og stjórnin miðar nú við að kostnaður vegna þeirra nemi andvirði um tíu milljarða Bandaríkjadala, eða um 1.425 milljarða íslenskra króna.

„Stærðargráða eyðileggingarinnar er gríðarleg og hún krefst stórtækra mannúðarviðbragða fyrir 33 milljónir fólks,“ sagði Ahsan Iqbal, áætlanaráðherra Pakistans, á blaðamannafundi í dag. „Þess vegna biðla ég til annarra Pakistana, Pakistana erlendis og alþjóðasamfélagsins til að hjálpa Pakistan á þessari ögurstundu.“

Fjöldi fólks er nú án hreins drykkjarvatns vegna hamfaranna. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hefur varað við því að þetta kunni að leiða til frekari dauðsfalla. „Núna er mikil hætta á að banvænir sjúkdómar smitist ört með vatninu, þar á meðal niðurgangur, kólera, beinbrunasótt, mýrarkalda,“ sagði Andullah Fadil, fulltrúi UNICEF í Pakistan. „Þess vegna er hætta á dauða margra barna í viðbót.“