Ef mótmælin í Hong Kong halda áfram og stjórnvöld í kínverska sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong ná ekki stjórn á mótmælendum mun ríkisstjórn Kína í Peking ekki sitja hjá og einfaldlega fylgjast með. Þetta sagði Chen Wen, erindreki Kínverja í Lundúnum, við breska ríkisútvarpið í gær.

Undanfarna daga hafa verið fluttar af því fréttir að þúsundir kínverskra herlögregluþjóna hafi verið fluttar til Shenzen, steinsnar frá Hong Kong, og í gær gengu á annað hundrað þúsunda mótmælenda um götur Hong Kong.

Krafan var skýr og hefur ekki breyst. Mótmælendur vilja að frumvarp borgaryfirvalda um að heimila framsal til Kína verði drepið alfarið, en það hefur nú verið dregið til baka. Þá vilja þeir að borgaryfirvöld lýsi því yfir að mótmælin séu ekki óeirðir, að handteknir og ákærðir mótmælendur verði leystir úr haldi og að Carrie Lam, æðsti embættismaður borgarinnar, segi af sér. Þá er farið fram á óháða rannsókn á valdbeitingu lögreglu og vilja mótmælendur meina að lögreglulið borgarinnar hafi beitt táragasi og gúmmíkúlubyssum að óþörfu. Af þessu hefur ekki orðið.

Deginum ljósara er að kínverski Kommúnistaflokkurinn á meginlandinu er afar ósáttur við það að mótmælunum linni ekki. Hafa talsmenn flokksins á undanförnum dögum og vikum meðal annars sagt mótmælunum svipa til hryðjuverka en mótmælendum hefur ítrekað lent saman við lögreglu.