Kínversk stjórnvöld hafa brugðist illa við orðum talsmanns bandaríska utanríkisráðuneytisins um að sniðganga mögulega Vetrarólympíuleikanna í Beijing á næsta ári. Kínverjar segja þetta tilraun til að gera leikana pólitíska og valdi einungis íþróttafólki skaða.
„Þessi svokallað sniðganga blandar saman leikunum og stjórnmálum og fer gegn Ólympíuandanum. Þetta mun aðeins skaða íþróttafólk og störf Alþjóðaólympíunefndarinnar. Það mun ekki njóta stuðnings alþjóðasamfélagsins, meðal annars bandarísku Ólympíunefndarinnar,“ sagði Zhao Lijian, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, í dag samkvæmt frétt South China Morning Post.
Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði á blaðamannafundi að verið væri að kanna í samstarfi við bandamenn að Bandaríkin tækju ekki þátt í leikunum. Price sagði þó síðar að ekkert væri ákveðið í þessum efnum. Enn væri langt í leikana og of snemmt að segja til um hver niðurstaða viðræðna við bandamenn og samstarfsþjóðir yrði.
Hagsmunasamtök og löggjafar í Bandaríkjunum hafa hvatt þarlend stjórnvöld til að taka ekki þátt í Vetrarólympíuleikunum vegna meintrar aðfarar kínverska stjórnvalda gegn Úígúrum í Xinjiang-héraði. Kínverjar þvertaka fyrir ásakanir um að þeir beiti Úígúra harðræði og neita að ein milljón Úígúra hafi verið send í fangabúðir, líkt og þeir hafa verið sakaðir um.
Lygi aldarinnar
„Fullyrðingar um þjóðarmorð í Xinjiang eru lygi aldarinnar,“ sagði Zhao en Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagt að þar eigi sér stað þjóðarmorð. „Við höfum ítrekað skýrt málið en Bandaríkin hafa litið fram hjá staðreyndum og skapa vantraust á Kína, byggt á lygum.“ Hann er vongóður um að hægt væri að halda leikana með samstarfi allra ríkja.
Kínversk stjórnvöld hafa undanfarið leitast við að afla leikunum stuðnings og hafa utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra landsins farið víða um heim til að ræða við valdamenn um þá.
Áður en Vetrarólympíuleikarnir eiga að fara fram í febrúar verða Ólympíuleikarnir haldnir í Tókýó í Japan. Til stóð að þeir færu fram í fyrra en var frestað vegna COVID-19 faraldursins. Utanríkisráðherrar Kína og Japans ræddu saman í síma á mánudaginn og voru sammála um að starfa saman til að halda leikana tvo.