Talsverð lækkun varð í fjölda sauðkinda á Íslandi milli 2019 og 2020 samkvæmt nýjum tölum sem Hagstofa birti í gær. Í talningunni nam fjöldi sauðkinda 401.022 en þær höfðu verið 415.949 árið 2019 og 432.023 árið 2018. Sauðkindunum hefur fækkað á hverju ári síðan 2014 en þá voru þær taldar yfir 480 þúsund.

Á sama tíma hefur holdakúm á Íslandi fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum samkvæmt talningum Hagstofu. Árið 2020 voru þær 3.295, sem var aukning um rúmar 300 kýr frá árinu 2019. Á tíu árum hefur fjöldi þeirra nær tvöfaldast, en einungis 1.672 holdakýr voru taldar í skýrslu Hagstofu árið 2010.

Skýist af verðhruni í framleiðslu

Kári Gautason, sérfræðingur hjá Bændasamtökunum, segir að fækkun sauðkinda skýrist af verðhruni í framleiðslu þeirra sem hafi orðið á árunum 2016 til 2017. Það ástand hafi lítið batnað síðan þá og hafi það leitt til þess að sumir bændur fækki fé eða hætti búskap. Fjölgun holdakúa skýrist hins vegar af viðleitni bænda til að auka gæðin á innlendu nautakjöti. „Íslenska búkynið er mjólkurkyn og hefur ekkert sérstaklega verið ræktað fyrir kjötafurðum. Til þess að bæta gæðin á nautakjötinu hafa menn farið þá leið að reyna að efla holdakjötframleiðsluna með því að fjölga þeim kúm.“

Eftirspurn á íslenskum lopa hefur verið mikil erlendis á tíma kórónuveirufaraldursins en Kári segir þetta hafa lítil áhrif á fjölda kinda hér á landi. „Lopinn er í tísku núna en virði ullar er mjög lítið hlutfall af tekjum bóndans af sauðfjárræktinni og skiptir ekki svo miklu máli við ákvörðun á því hvort hann ræktar mikið eða lítið af kindum.“