Rannsóknir á færeyskum kindaskítsleifum hafa leitt í ljós að landnám í eyjunum hófst fyrr en áður var talið. Nánar tiltekið í kringum árið 500 eftir Krists burð, en ekki um 800, þegar vitað er að Norrænir menn námu land. Rannsóknin var gerð af vísindamönnum við Wyoming-háskóla í Bandaríkjunum á setlögum úr stöðuvatni.

„Hvert okkar í teyminu notar mismunandi aðferðir til að greina setlögin og við fáum skilning á því hvernig umhverfið hefur breyst, meðal annars með tilkomu fólks,“ sagði jarðfræðingurinn Lorelei Curtin, sem leiddi rannsóknina, við sjónvarpsstöðina CNN. En teymið naut stuðnings fornleifafræðingsins Simun Arge hjá þjóðminjasafni Færeyja. Rannsóknin var birt á fimmtudag í tímaritinu Communications Earth & Environment.

Til eru skriflegar heimildir frá munkum á Bretlandseyjum, sem segja frá tilvist eyja sem gætu vel verið Færeyjar, eldri en landnám Norrænna manna. Hin nýju gögn renna stoðum undir þessar frásagnir þó að þau segi ekki til um hverrar þjóðar fólk átti umræddar rollur.

Rannsóknin fór fram á setlögum í stöðuvatni við bæinn Eiði á Austurey, næststærstu og næstfjölmennustu eyju Færeyja. Borað var tæplega þrjá metra ofan í botn stöðuvatnsins til að sækja setlög, sem sýna 10 þúsund ára umhverfissögu vatnsins og umhverfisins í kring.

Klár ummerki um kindaskít fundust í setlögunum, á dýpi sem hægt var að rekja til árabilsins 492 til 512 eftir Krist. Hægt er nema dýrategundina út frá líffræðilegum eiginleikum skítsins og greiningu á erfðaefni, en engin spendýr voru á Eyjunum fyrir þennan tíma. Hið þekkta íslenska landnámsöskulag, úr stórgosi á Veiðivatna- og Torfajökulssvæðinu með miklu gjóskufalli, var notað til þess að reikna út ártöl sem kindaskíturinn varð til á.

Skoski fornleifafræðingurinn Kevin Edwards rannsakaði bygg í Færeyjum árið 2013 og kom þá með tilgátu um að breytingarnar á gróðri væru slíkar að mjög líklegt væri að landnám eyjanna hefði orðið löngu fyrir tíma víkinga, jafnvel 300 árum eftir Krist. Gögn úr hinni nýju rannsókn eru meira afgerandi, en sú rannsókn er tileinkuð Edwards, sem lést fyrr á þessu ári.

Rannsóknin sýnir hins vegar engin merki um kindur eftir þennan tíma. Það rímar einnig vel við rannsókn Edwards, sem sýndi byggið hverfa á tiltölulega skömmum tíma. Miðað við þetta má gera ráð fyrir því að landnám þessa ókunna fólks hafið dáið út milli 500 og 600 eftir Krist, 200 árum fyrir landnám víkinganna.