Á næstu dögum stefna Kínverjar á að skjóta mönnuðu geimfari upp frá Góbí-eyðimörkinni. Það verður fyrsta mannaða geimferð Kínverja síðan 2016.

Geimskotið er þriðja skref af ellefu sem þarf til að ljúka fyrirhugaðri geimstöð Kínverja fyrir 2022. Af þeim verða fjögur geimskot mönnuð.

Stefnt er á að geimfararnir verði á sporbaug um jörðu í þrjá mánuði, sem er næstum þrisvar sinnum lengri dvöl en í geimferðinni árið 2016.

Þar sem bandarísk lög banna NASA að hafa nokkur afskipti af Kína hafa engir kínverskir geimfarar stigið um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni. Kínverjar hafa undanfarið sótt í sig veðrið í geimskotum og urðu í maí önnur þjóðin til að lenda jeppa á Mars.