Ef forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ætlar að halda til streitu innflutningstollum á kínverskar vörur munu stjórnvöld í Kína leggja á innflutningstolla á bandarískar vörur sem næmi 75 milljörðum dollara, eða 9.225 milljarða króna. Kæmi slíkt til framkvæmda í tveimur skrefum, fyrst 1. september og síðan 15. desember. Þar á meðal væri um að ræða 25% innflutningstolla á bandaríska bíla. Við þessu mátti reyndar búast og ljóst að kínversk yfirvöld muni ekki líða einhliða tollaálögur Trumps.

Áhrif boðunar þessara tolla frá kínverskum yfirvöldum birtust strax í nokkurri lækkun á hlutabréfamörkuðum um allan heim. Þessir tollar á bíla myndu hitta mjög illa fyrir GM, Ford, Tesla og þá evrópsku bílaframleiðendur sem framleiða bíla í Bandaríkjunum til útflutning, þá helst BMW og Mercedes Benz. Tollastríð Trumps við Kína er farið að hafa svo alvarlegar afleiðingar að sumir spá brattri niðursveiflu í efnahagslífi heimsins og jafnvel nýrri kreppu.