Stjórnvöld í Kína hafa lýst því yfir að landið muni ekki lengur taka þátt í loftslagsaðgerðum með Bandaríkjunum í kjölfar heimsóknar Nancy Pelosi til Taiwan .

Þetta kemur fram á vef AP news en Bandaríkin og Kína sem eru í öðru og fyrsta sæti yfir þau ríki sem menga mest á jörðinni höfðu áður náð samkomulagi árið 2014 en sá samningur var talinn einn sá mikilvægasti í sögu loftslagsmála.

Hann átti síðar meir eftir að leiða til Parísar sáttmálans sem samþykktur var árið 2015.

Ásamt því að hætta samstarfi í loftslagsmálum munu Kínverjar einnig hætta samhæfðum aðgerðum ríkjanna til takmörkunar á eiturlyfinu Fentanyl sem og öllum sameiginlegum hernaðarlegum aðgerðum.

Myndin sýnir reyk frá orkuveri í Xi 'an, í Shaanxi héraði í Kína. Bandaríkin og Kínverjar menga langmest af öllum þjóðum heimsins.
Mynd/getty

Yfirlýsing Kínverja hefur stigmagnað spennuþrungið samband ríkjanna en Kínverjar stunda nú stífar heræfingar við landamæri Taiwan og hafa skotið eldflaugum á skotmörk í kringum eyjuna.

Kínverjar hafa þá einnig tilkynnt að þeir munu beita refsiaðgerðum gegn Nancy Pelosi og fjölskyldu meðlimum hennar en ekki hefur komið fram hverjar þær aðgerðir verða.