Atvinnuleysi í Kína hefur aukist í kjölfar harðra sóttvarnaaðgerða sem stjórnvöld framfylgdu síðastliðna mánuði. Hagfræðingar spá því að efnahagur landsins muni ná sér á endanum en búast ekki við skjótum gróða á næstunni.

Ástandið á vinnumarkaðnum er verst meðal farandverkamanna, það er að segja verkamanna sem hafa flust frá landsbyggðinni til stórborga í leit að verksmiðjuvinnu og öðrum þjónustustörfum. Í gegnum tíðina hefur þessi hópur verið eitt mikilvægasta tannhjólið í kínverska efnahagnum, en í nóvember voru rúmlega sex prósent þeirra án vinnu.

Atvinnuleysi á landsvísu hefur einnig hækkað upp í 5,7 prósent og hefur atvinnuleysi ekki verið það hátt síðan í maí síðastliðnum þegar öllu var skellt í lás í stórborginni Sjanghæ. Ef litið er á 31 stærstu borg landsins er atvinnuleysi komið upp í 6,7 prósent.

Iðnaðarframleiðsla jókst aðeins um 2,2 prósent, sem er rúmlega helmingi minna en hún var í október. Fasteignamarkaðurinn dróst einnig saman um 9,8 prósent á fyrstu ellefu mánuðum ársins, en sá markaður sér fyrir rúmlega 30 prósentum af allri landsframleiðslu Kína.

Stjórnvöld í Kína afléttu nýlega ströngustu sóttvarnareglum í landinu í kjölfar mikillar mótmælaöldu um allt land síðustu vikur. Mikil reiði hefur verið á meðal Kínverja, sem margir hverjir voru sendir í einangrunarbúðir eftir að upp komst um smit eða lentu í því að gæludýrum þeirra var lógað af heilbrigðisstarfsfólki.

Hagvöxtur í Kína hefur ekki verið svona drjúgur síðan Mao Zedong lést árið 1976 og byrjað var að opna hagkerfi landsins. Hagfræðingar spá því að vöxtur í Kína muni haldast í kringum 2,8 til 3,2 prósent á næstu mánuðum.

Skyndileg ákvörðun stjórnvalda um afléttingar á sóttvarnareglum hefur valdið ákveðnu uppnámi í landinu og eru margir Kínverjar hræddir um að smitast af Covid-19. Mikil truflun hefur verið í atvinnulífinu og er algengt að sjá auða veitingastaði og tómar verslunargötur. Verksmiðjur í landinu glíma einnig við skort á bæði starfsfólki og birgðum.

Hagfræðingar japanska fjármála­risans Nomura telja að efnahagsástandið hafi líklega verið helsta ástæða þess að kínversk stjórnvöld breyttu skyndilega um stefnu og afléttu sóttvarnareglum en benda á að næstu mánuðir verði afar erfiðir fyrir kínverska efnahaginn.

„Við spáum því að það verði mikil útbreiðsla á Covid-smitum í kringum kínverska nýárið í lok janúar þegar fólk byrjar að ferðast um landið og mun það hafa mikil áhrif á efnahagslífið. Við höldum áfram að vara fólk við því að enduropnun kínverska hagkerfisins verði mjög erfið og sársaukafull.“