Ólga er innan bandarískra stjórnvalda eftir tvær tilraunir Kínverja með ofurhljóðfrá flugskeyti (e. hypersonic missiles). Þau geta ferðast á allt að fimmföldum hljóðhraða og talið er að flugskeytin geti borið kjarnavopn.

Tilraunirnar komu bandarískum yfirvöldum í opna skjöldu og óttast þeir að Kínverjar standi þeim nú mun framar í þróun slíkrar tækni og að tilraunirnar marki upphaf að nýju vígbúnaðarkapphlaupi, í anda þess sem geisaði í kalda stríðinu milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna sálugu.

Financial Times greindi fyrst frá því í október að Kínverjar hefðu gert tilraunir með slíka tækni í júlí og ágúst. Bandaríkin og Rússland hafa unnið að þróun slíkrar tækni í áratugi en svo virðist sem Kína standi þeim nú framar. Auk þess hefur fjöldi annarra ríkja unnið að slíkri tækni, þar á meðal Bretland, Frakkland og Norður-Kórea.

Samkvæmt skýrslu rannsóknarþjónustu Bandaríkjaþings hafa Íranir, Suður-Kóreumenn og Ísraelar hafið grunnrannsóknir á hljóðfráum flugskeytum.Sjálfir hafa Kínverjar ekki viðurkennt að um vopnatilraunir væri að ræða og segja þær tengjast geimferðaáætlun þeirra.

„Við höfum engan áhuga á vígbúnaðarkapphlaupi við önnur ríki. Bandaríkin hafa á undanförnum árum afsakað aukinn vígbúnað og þróun hljóðfrárra flugskeyta með því að tala um „ógnina sem stafar af Kína“,“ segir Liu Pengyu, talsmaður kínverska sendiráðsins í Bandaríkjunum.

Lengi hefur andað köldu milli Bandaríkjanna og Kína og eru tilraunirnar til þess vísar að auka á spennuna. Bandaríkin hafa þrýst mjög á Kína að taka þátt í samningum um að taka ásamt Rússlandi þátt í samningum um takmörkun kjarnavopna og mun það hafa borið á góma á fjarfundi Joes Biden Bandaríkjaforseta og Xi Jinping, aðalritara kínverska kommúnistaflokksins í síðustu viku.

Yfirmaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, hershöfðinginn Mark Milley, segir tilraunir Kínverja vera „Spútnik móment“ og vísar þar til þess er Sovétríkin sendu fyrsta gervihnöttinn út í geim árið 1957 sem markaði upphaf geimferðakapphlaupsins.

Undirmaður hans, hershöfðinginn John Hyten, tekur í sama streng. „Spútnik skapaði brýna þörf á aðgerðum í Bandaríkjunum. Tilraunin 27. júlí hafði ekki sömu áhrif. Ég tel að það hefði átt að gerast.“

„Við vinnum að því eins hratt og við getum að þróa slíka tækni,“ sagði varnarmálaráðherrann Lloyd Austin fyrir skömmu.

Bandaríkjamenn óttast að með þessari tækni geti Kínverjar komist fram hjá eldflaugavarnakerfi þeirra, með því að senda kjarnavopn yfir Suðurpólinn, en varnakerfi Bandaríkjanna beinist einkum að því að verja landið fyrir vopnum sem fljúga yfir Norðurpólinn.

Kínverjar gætu því haft yfirhöndina ef kjarnorkustríð hæfist og ráðist gegn Bandaríkjunum, án þess að þau gætu komið nokkrum vörnum við. Kínverjar tilkynntu árið 1964 er þeir gerðu sínar fyrstu tilraunir með kjarnavopn, að aldrei yrði ráðist á land að fyrra bragði með slíkum vopnum. Bandaríkjamenn og Rússar hafa ekki lofað því sama.