Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, fagnaði í gær góðum árangri í baráttunni við COVID-19 farsóttina, ef marka má fregnir ríkisfréttastofunnar KCNA.

Sagði hann þarlend stjórnvöld hafa tekist að hindra innrás veirunnar sem hafa áður lýst því yfir að engin COVID-19 tilfelli hafi fundist í landinu. Erlendir sérfræðingar hafa þó dregið þær yfirlýsingar í efa.

Lítið er vitað um stöðu mála í Norður-Kóreu en eitthvað hefur borið á óstaðfestum fregnum af tilfellum innan landamæranna.

Þegar bera fór á útbreiðslu hinnar nýju kórónuveiru fyrir um hálfu ári var landamærum Norður-Kóreu skellt í lás og þúsundir settir í einangrun.

Á forsætisnefndarfundi með æðstu stjórnendum landsins í gær er Kim Jong-un sagður hafa farið yfir viðbrögð stjórnvalda vegna farsóttarinnar og þakkað forsjálli forystu Kóreska verkamannaflokksins.

Þrátt fyrir árangurinn lagði leiðtoginn áherslu á að þess yrði gætt að hvergi yrði slakað á sóttvarnarráðstöfunum í ljósi þess að veiruna væri enn að finna í nágrannaríkjum.