Kim Jong-un, leið­togi Norður-Kóreu hefur beðist af­sökunar á drápi á suður­kóreskum em­bættis­manni á þriðjudaginn síðastliðinn.

Kim er sagður hafa sent for­seta Suður-Kóreu, Moon jae-in, bréf þar sem hann segir að at­vikið hafi verið „skammar­legt“ og það hefði aldrei átt gerast, en for­seta­skrif­stofa Suður-Kóreu greinir frá þessu.

Suðurkóreskur em­bættis­maður var skotinn til bana út á hafi á þriðju­daginn af norður­kóreskum her­mönnum. Málið hefur vakið mikla reiði í suðurkóreskum fjöl­miðlum.

Mun þetta vera í fyrsta sinn sem suður­kóreskur ríkis­borgari er drepinn af norður­kóreskum her­mönnum í nær ára­tug.

Stjórn­völd í Norður-Kóreu viður­kenna í bréfinu að hafa skotið 10 skotum að manninum. Þau hins vegar neita fyrir það að hafa kveikt í líki hans.

For­seta­skrif­stofa Suður-Kóreu hefur greint frá því að hún muni birta bréfið á­samt öðrum ný­legum bréfa­sendingum milli Moon jae-in og Kim Jong-un.