Smá­stirni sem er lengra en hæsta bygging í heimi mun fljúga ná­lægt jörðu á morgun, að sögn geim­ferða­stofnun Banda­ríkjanna, NASA.

Smá­stirnið, sem hefur fengið hið eftir­minni­lega nafn 7482 (1994 PC1) mælist um það bil 1 kíló­metra á lengdina eða rúm­lega 170 metra um­fram hæstu byggingu heims, Burj Khalifa sem telur 828 metra.

Sam­kvæmt mælingum NASA mun smá­stirnið verða í innan við 1.981.399 km fjar­lægð frá jörðu sem er það næsta sem það kemur komist jörðu frá 17. janúar 1933. Þá er einnig búist við því að smá­stirnið fljúgi aftur fram hjá jörðu í júlí á þessu ári en þó frá mun meiri fjar­lægð. Ekki er talið að það ferðist aftur svo ná­lægt jörðu fyrr en árið 2105.

Hægt verður að fylgjast með ferða­lagi smá­stirnisins í beinni út­sendingu hjá The Virtu­al Telescope Project og hefst út­sendingin klukkan 20:00 á ís­lenskum tíma.

Smástirnið 7482 (1994 PC1) mun fljúga nálægt jörðu á morgun.
Mynd/NASA JET PROPULSION LABORATORY

NASA hefur fylgst nokkuð grannt með ferða­lagi þessa til­tekna smá­stirnis síðan það var upp­götvað í ágúst 1994. Er það skil­greint sem svo­kallað Appollo smá­stirni vegna þess að ferill þess skarast á við spor­baug jarðar og er það flokkað sem „hugsan­lega hættu­legt“ vegna mögu­leika þess að það komi nálægt jörðu.

Vitað er um meira en milljón smá­stirni sem ferðast um himin­geiminn og ekki er ó­al­gengt að þau ferðist fram hjá jörðu. Af flestum þeirra stafar lítil sem engin ógn en þó er vitað um allt að 25.000 smá­stirni nærri jörðu sem gætu ollið miklum hörmungum ef þau myndu rekast á jörðina, að sögn Nan­cy Cha­bot, yfir­reiki­stjörnu­fræðingi hjá Johns Hop­kins há­skólanum.

„Við erum í raun ekki að tala um eitt­hvað á stærð við fjölda­út­dauða, en þó svæðis­bundna tor­tímingu sem gæti þurrkað út borg eða smá­ríki. Þannig þetta er raun­veru­legt á­hyggju­efni. Þetta er raun­veru­leg ógn,“ segir hún í sam­tali við CBS frétta­stofuna.

Ef ske kynni að smá­stirni eða loft­steinar ógni lífs­viður­væri okkar hér á jörðu í fram­tíðinni, svipað og í kvik­myndinni Don‘t Look Up, þá vinnur NASA nú að lausn á vandanum. Í nóvember síðast­liðnum skaut geim­ferða­stofnunin upp könnunar­hnetti sem á­ætlað er að muni klessa beint á lítið smá­stirni næsta haust til að prófa hvort mögu­legt sé að breyta ferli slíkra hnatta ef þeir skyldu stefna beint á jörðina.