Smástirni sem er lengra en hæsta bygging í heimi mun fljúga nálægt jörðu á morgun, að sögn geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA.
Smástirnið, sem hefur fengið hið eftirminnilega nafn 7482 (1994 PC1) mælist um það bil 1 kílómetra á lengdina eða rúmlega 170 metra umfram hæstu byggingu heims, Burj Khalifa sem telur 828 metra.
Samkvæmt mælingum NASA mun smástirnið verða í innan við 1.981.399 km fjarlægð frá jörðu sem er það næsta sem það kemur komist jörðu frá 17. janúar 1933. Þá er einnig búist við því að smástirnið fljúgi aftur fram hjá jörðu í júlí á þessu ári en þó frá mun meiri fjarlægð. Ekki er talið að það ferðist aftur svo nálægt jörðu fyrr en árið 2105.
Hægt verður að fylgjast með ferðalagi smástirnisins í beinni útsendingu hjá The Virtual Telescope Project og hefst útsendingin klukkan 20:00 á íslenskum tíma.

NASA hefur fylgst nokkuð grannt með ferðalagi þessa tiltekna smástirnis síðan það var uppgötvað í ágúst 1994. Er það skilgreint sem svokallað Appollo smástirni vegna þess að ferill þess skarast á við sporbaug jarðar og er það flokkað sem „hugsanlega hættulegt“ vegna möguleika þess að það komi nálægt jörðu.
Vitað er um meira en milljón smástirni sem ferðast um himingeiminn og ekki er óalgengt að þau ferðist fram hjá jörðu. Af flestum þeirra stafar lítil sem engin ógn en þó er vitað um allt að 25.000 smástirni nærri jörðu sem gætu ollið miklum hörmungum ef þau myndu rekast á jörðina, að sögn Nancy Chabot, yfirreikistjörnufræðingi hjá Johns Hopkins háskólanum.
„Við erum í raun ekki að tala um eitthvað á stærð við fjöldaútdauða, en þó svæðisbundna tortímingu sem gæti þurrkað út borg eða smáríki. Þannig þetta er raunverulegt áhyggjuefni. Þetta er raunveruleg ógn,“ segir hún í samtali við CBS fréttastofuna.
Ef ske kynni að smástirni eða loftsteinar ógni lífsviðurværi okkar hér á jörðu í framtíðinni, svipað og í kvikmyndinni Don‘t Look Up, þá vinnur NASA nú að lausn á vandanum. Í nóvember síðastliðnum skaut geimferðastofnunin upp könnunarhnetti sem áætlað er að muni klessa beint á lítið smástirni næsta haust til að prófa hvort mögulegt sé að breyta ferli slíkra hnatta ef þeir skyldu stefna beint á jörðina.