Fyrir hvert kíló af dilka­kjöti sem fram­leitt er á Ís­landi eru að meðal­tali losuð 264 til 387 kíló kol­tví­sýringsí­gilda út í and­rúms­loftið. Kol­efnis­spor ís­lenskrar sauð­fjár­ræktar er með því stærsta í heiminum en til saman­burðar er meðal­kol­efni­spor flug­fars frá Ís­landi til Evrópu talið nema 250 til 350 kílóum kol­tví­sýringsí­gilda á hvern far­þega.

Þó er mikill munur á losun milli sauð­fjár­búa hér á landi og jafn­vel dæmi um að sauð­fjár­rækt geti verið kol­efnis­hlut­laus. Þar hefur á­stand lands og að­stæður til fram­leiðslunnar lang­mest á­hrif á losunina.

Sé mikið af fram­ræstu landi á sauð­fjár­búum sem ekki er nýtt til tún­ræktar og fé beitt á hag­lendi sem er í slæmu á­standi geta gildin jafn­vel orðið hærri en eitt tonn kol­tví­sýringsí­gilda fyrir hvert kíló af kjöti.

Þetta kemur fram í nýrri rann­sókn Ólafs Arnalds, prófessors við Land­búnaðar­há­skóla Ís­lands og Jóns Guð­munds­sonar, lektors við sama skóla. Með kol­tví­sýringsí­gildum er búið að um­reikna aðrar gróður­húsa­loft­tegundir í það magn kol­tví­sýrings sem sam­svarar hlýnunar­mætti þeirra.

Sé sauðfé beitt á illa farið land eykst kolefnisspor kjötframleiðslunnar til muna.
Fréttablaðið/Ernir

Nauðsynlegt að taka mið af landnotkun

Að sögn Ólafs er þetta í fyrsta skipti sem fullt tillit er tekið til losunar frá landi við mat á kolefnispori íslenskrar sauðfjárræktar. 

„Við verðum að fara að taka alla þætti losunar frá Íslandi inn í dæmið og mér finnst að það hafi kannski stundum skort kjarkinn til þess að skoða þessa þætti,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.

Líkt og áður segir er um meðaltalstölur að ræða og getur verið gríðarlegur munur á einstaka búum. Ólafur kallar eftir því að tekinn verði saman gagnagrunnur sem heldur utan um losun hvers bús á Íslandi.

„Samfélagið styrkir lambakjötsframleiðslu á Íslandi um 5,2 milljarða króna á ári og á þá rétt á að vita um umhverfisáhrif þeirra styrkja sem almenningur veitir til þessarar framleiðslu.“

Þá sé um að ræða mikilvægar upplýsingar fyrir neytendur sem kjósi í auknum mæli að reyna að draga úr kolefnisspori sínu.

„Ég er alls ekki á móti því að það sé framleitt dilkakjöt á Íslandi en við þurfum að vera upplýst um það sem við þurfum að gera.“

Losun líklega ein sú mesta hér á landi

Ólafur segir að líklega séu fá dæmi um jafn mikla losun frá sauðfjárrækt og hér og landi. Meginmunurinn sé að erlendis sé sauðfjárrækt alla jafna stunduð á þurrlendi en hér fari hún mikið fram á framræstu landi. Þegar votlendi sé framræst losi það koltvísýring sem væri annars bundinn í jarðveginum.

„Við erum með tölur fyrir okkar sauðfjárrækt sem eru miklu miklu hærri heldur en líklega þekkist annars staðar.“

Ólafur Arnalds, jarðvegsfræðingur og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Mynd/Aðsend

Svipaða sögu að segja með nautakjötið

Ólafur og Jón skoðuðu einnig kolefnisspor nautgriparæktunar hér á landi og telja að það sé af sambærilegri stærðargráðu og í tilfelli dilkakjötsins.

Niðurstaðan er að losunin geti verið frá um 25 kílóum koltvísýringsígilda fyrir hvert kíló nautakjöts þar sem eingöngu sé notast við þurrlendi og óframræst land og upp í hundruð kílóa koltvísýringsígilda þar sem framræst votlendi sé undirstaða framleiðslunnar.

Ólafur segir að ekki eigi að lesa það úr þessum tölum að nautakjötið sé endilega skárra en dilkakjötið þegar kemur að losun. Almennt bendi rannsóknir til að kolefnisspor nautakjöts og dilkakjöts sé nokkuð sambærilegt. Breytileikinn sé mikill eftir aðstæðum og því sé mikilvægt að meta losun hvers bús og gera upplýsingarnar aðgengilegar.

„Til eru framleiðendur bæði á dilkakjöti og nautakjöti sem eru fyrst og fremst að nýta þurrlendi og sumir jafnvel land sem er verið að gróa og rækta upp. Það er þá vara sem er ekki að hafa neitt sótspor. Það eru ofskaplega mikil tækifæri í þessu.“

Á hinn boginn sé kolefnissporið mjög hátt ef nautakjötið er framleitt fyrst og fremst á framræstu votlendi.

Aukin áhersla hefur verið lögð á endurheimt votlendis. Hér sést Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra og Árni Bragason landgræðslustjóri fylla í skurð við Bessastaði árið 2016.
Fréttablaðið/Eyþór

Auðvelt að taka saman upplýsingar um hvert bú

Ólafur bætir við að mjög góðar upplýsingar séu nú þegar til framræst land og þá skurði sem hafi verið gerðir til að framræsa votlendi.

„Þær upplýsingar liggja meira og minna fyrir, það væri ekki lengi verið að vinna upp úr því svo það væri til gagnagrunnur um hvert einasta bú á Íslandi.“

Bændur sem komi illa út úr slíkum útreikningi geti bætt ráð sitt með því að loka skurðum og endurheimta votlendi þar sem það sé hægt. Þá sé mikilvægt að beita fé eingöngu á vel gróið land og þá hóflega.

Kallað eftir frekari aðgerðum í landbúnaðarmálum

Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir að leggja takmarkaða áherslu á landbúnaðinn í loftslagsáætlunum sínum. Ólafur segist taka undir þá gagnrýni.

„Mér finnst þetta aðeins vera byrjað að hreyfast en þetta hefur verið svona eins og heit kartafla.“

Þrátt fyrir aukna umræðu í samfélaginu um þátt landbúnaðarins í losun gróðurhúsalofttegunda hafi minna farið fyrir umræðunni í stjórnsýslunni.

„Landbúnaðurinn og við sem styrkjum þessa framleiðslu þurfum að taka mið af sótspori framleiðslunnar og landbúnaðarstefna þjóðarinnar þarf að taka miklu meira mið af bæði umhverfismálum og breyttum neysluvenjum,“ segir Ólafur að lokum.