Topplisti útlána á bókasöfnum landsins er nú tilbúinn á heimasíðu Landskerfa. Á listanum má sjá það sem landinn hafði helst áhuga á að glugga í fyrir svefninn á síðasta ári, og skjóta skólabörn landsins sögunum um Kidda klaufa eftir Jeff Kinney í níu efstu sætin.

Listinn er samansettur af tölfræði útlána af bókasöfnum sem eiga aðild að Gegni. Þar er hægt að sjá útlánafjölda eftir safnaflokkum, landsvæðum, efnisflokkum, árum og ársfjórðungum.

Í fyrsta sæti yfir vinsælustu útlánsbókanna á síðasta ári er Dagbók Kidda klaufa: furðulegt ferðalag. Reyndar má segja að Kiddi klaufi sé allsráðandi á íslenskum bókasöfnum, en ef heildarútlán á öllum bókasöfnum eru talin saman eru bækur um hann Kidda klaufa í níu efstu sætunum. Á vef Landskerfa er sigurganga Kidda skrifuð á útlán til skólabarna í grunnskólum landsins.

Í almenningsbókasöfnum er það Dalalíf hennar Guðrúnar frá Lundi sem hreppir hnossið, annað árið í röð. „Það er spennandi að skoða vinsælasta efnið á bókasöfnunum. Sumar bækur virðast verma toppsætin ár eftir ár á meðan að aðrir góðir titlar fara ekki mikið í útlán þrátt fyrir góða sölu og mikla umfjöllun,“ segir í frétt Landskerfa.

Þá er jafnframt áhugavert að líta á útlán í almenningsbókasöfnum eftir landshlutum. Á höfuðborgarsvæðinu var Dalalífið vinsælast, en á Norðurlandi var það Mistur eftir Ragnar Jónasson. Skandinavískir krimmar eru vinsælir á Austur- og Suðurlandi, en Þorsti eftir Jo Nesbø var vinsælasta bókin á Austurlandi og Myrkrið veit eftir Arnald Indriðason var vinsælust á Suðurlandi og Suðurnesjum. Vestfirðingar og Vestlendingar voru aftur á móti áhugasamastir á Syndafalli Mikaels Torfasonar.

Heildarlisti vinsælustu bókanna á almenningsbókasöfnum á síðasta ári:

Titill (Útgáfuár)Útlán
(1) Dalalíf / Guðrún frá Lundi. (2016)3.193
(2) Myrkrið veit / Arnaldur Indriðason. (2017)2.921
(3) Mistur / Ragnar Jónasson. (2017)2.739
(4) Syndafallið / eftir Mikael Torfason. (2017)2.446
(5) Gatið / Yrsa Sigurðardóttir. (2017)2.410
(6) Ekki vera sár / Kristín Steinsdóttir. (2017)2.297
(7) Þorsti / Jo Nesbø (2018)2.286
(8) Litla bókabúðin í hálöndunum / Jenny Colgan (2017)2.210
(9) Sonurinn / Jo Nesbø (2017)2.160
(10) Saga Ástu : hvert fer maður ef það er engin leið út úr heiminum? / Jón Kalman Stefánsson. (2017)2.128