,,Við finnum fyrir auknum áhuga á rafbílum með hverjum mánuðinum sem líður. Kia var söluhæsta bílategundin í flokki fólksbíla á síðasta ári og við höldum okkar striki á þessu ári og er Kia önnur mest selda tegundin hér á landi og mest seldi rafbíllinn þrátt fyrir að miklar framleiðslutakmarkanir hafi verið. Kia býður upp nokkrar mismunandi gerðir hreinna rafbíla og fjölgar gerðunum um 1-2 á ári næstu árin.  Þá hefur Kia gott orðspor og lága bilanatíðni og er einnig eina bíltegundin á Íslandi með 7 ára verksmiðjuábyrgð frá framleiðanda. Þessi atriði skipta máli og ýta undir þessar miklu vinsældir sem Kia hefur notið síðustu ár. Framundan eru spennandi bílar og munum við frumsýna á komandi vikum glæsilega nýja kynslóð Kia Niro sem hefur verið einn af okkar vinsælustu bílum. Við eigum von á að hann muni njóta sömu vinsælda og forveri sinn en nýr Kia Niro mætir með nýtt útlit og enn rafmagnaðri en áður. Hann mun koma í þremur útfærslum, hybrid, plug-in hybrid og 100% rafmagn," segir Þorgeir Pálsson, sölustjóri Kia hjá Bílaumboðinu Öskju.

Tæplega 12.000 fólksbílar hafa verið seldir það sem af er ári og eru rafbílar um 25% af heildarsölu hér á landi. Ef skoðuð er sala til einstaklinga þá eru um 53% kaupanda sem velja sér rafbíl og þar á eftir koma tengiltvinnbílar með 19% hlutdeild. Hybrid bílar hafa um 15% markaðshlutdeild en dísel- og bensínbílar elta lestina með samtals 13% hlutdeild af sölu nýskráðra fólksbíla. Þorgeir segir að það sé mjög ánægjulegt að sjá hve mikil sala er í rafbílum og þróunin sýnir að rafbílar eru fyrsta val Íslendinga.