Sérstök Evrópuútgáfa verður kynnt í september en bíllinn sem nú er frumsýndur er alþjóðleg útgáfa hans. Auðvelt er þó að sjá að bíllinn líkist nokkuð nýja EV6 raf bílnum, með sams konar C-laga dagljósum og ákveðinni línu þar sem vélarhlíf og grill mætast. Engar stærðartölur hafa verið birtar enn þá, svo við vitum ekki hvort hann er stærri en fyrri kynslóð, þó það sé venjulega vaninn. Innréttingin er alveg ný og með stórum, bogadregnum skjá sem nær yfir miðjustokk bílsins. Af myndinni að dæma er það sami búnaður og í nýjum Hyundai Tucson, með tveimur 10,25 tommu skjáum. Sérstök X-Line sportútgáfa verður einnig kynnt í framhaldinu. Engar tækniupplýsingar hafa heldur komið fram, en nánast öruggt er að sami vélbúnaður og í Tucson verði í boði að langmestu leyti.