Úkraínska borgin Kherson er nú rafmagnslaus, að því er virðist vegna skemmdarverka. Borgin er á valdi Rússa, sem náðu að hertaka hana án verulegrar mótspyrnu stuttu eftir að innrás þeirra í landið hófst í febrúar. Borgin er enn eina héraðshöfuðborgin sem Rússar hafa hernumið frá upphafi innrásarinnar.

Rússar innlimuðu borgina formlega ásamt öllu Kherson-héraði í lok september. Hvorki Úkraínumenn né mörg önnur ríki hafa viðurkennt innlimunina og Úkraínumenn hafa staðið í gagnsókn til að endurheimta borgina á síðustu vikum. Rússar hafa flutt óbreytta borgara frá borginni vegna yfirvofandi umsáturs sem bardaga um hana sem virðist vera í bígerð.

Stjórn Rússa í Kherson segir að úkraínskar hersveitir hafi gert árásir á þrjár rafmagnsleiðslur í héraðinu og hafi lokað bæði á vatns- og orkubirgðir borgarinnar. Volodymyr Saldo, héraðsstjóri Rússa í Kherson, sagði við rússneska ríkisfjölmiðilinn TASS að áætlað væri að rafmagninu yrði komið í lag í lok dagsins. TASS greindi jafnframt frá því að alls væru tíu byggðir í Kherson-héraði rafmagnslausar.

Úkraínumenn hafa einnig þurft að glíma við orkuvandamál. Rússar hafa gert fjölda árása á úkraínska orkuinnviði á undanförnun vikum. Vítalíj Klitsjko, borgarstjóri úkraínsku höfuðborgarinnar Kænugarðs, sagði í gær að ekki væri hægt að útiloka að borgin yrði vatns- og rafmagnslaus vegna árása á orkuinnviðina.