Sádiarabíski blaða- og andófsmaðurinn Jamal Khashoggi var kyrktur um leið og hann gekk inn á ræðisskrifstofuna í Istanbúl þann 2. október síðastliðinn. Þetta segir tyrkneskur saksóknari í málinu og bætir við að í kjölfarið hafi lík hans verið bútað í sundur. Ljóst sé að um skipulagt morð hafi verið að ræða.

Mál Khashoggis hefur vakið heimsathygli en hann var mættur á ræðisskrifstofuna til að skila inn skilnaðarpappírum vegna eiginkonu sinnar svo hann gæti tekið að eiga unnustu sína. Inn fór hann en sást hins vegar aldrei aftur á lífi, þvert á móti því sem sádiarabísk stjórnvöld sögðu á sínum tíma. Þau höfnuðu allri aðkomu að málinu en viðurkenndu loks fyrir rúmum tveimur vikum að honum hefði verið ráðinn bani.

Irfan Fidan, saksóknari í málinu, segir að Sádi-Arabar hafi ekki sýnt mikinn samstarfsvilja þrátt fyrir að hafa gefið það út að málið skyldi leyst. Tyrkir fara fram á að mennirnir átján, sem eru í haldi sádiarabískra stjórnvalda, verði framseldir til Tyrklands, enda hafi morðið verið framið innan lögsögu þeirra fyrrnefndu. 

Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu hefur hins vegar sagt að um sé að ræða sádiarabíska ríkisborgara sem framið hafi morð á sádiarabískri ræðisskrifstofu. Því sé eðlilegast að réttað verði yfir mönnunum á sádiarabískri grundu.

Fidan saksóknari segist hins vegar hafa rætt við tyrknesku leyniþjónustuna og í þeirra máli komi hinn voveiflegi sannleikur fram um örlög blaðamannsins sem var í sjálfskipaðri útlegð frá heimalandi sínu. Til að mynda af Sádi-Arabar ekki enn gert grein fyrir því hvert farið var með líkamsleifar Khashoggis.

Frétt Associated Press.