Þar sem eitt sinn stóð sjoppan Víðigerði á samnefndum stað í Húnavatnssýslunni er nú North West, hótel og veitingastaður, sem hefur líkt og staðir úti um allan heim þurft að laga starfsemi sína að heimsfaraldri Covid.

Agnes Bergþórsdóttir stóð vaktina og þjónaði til borðs þegar blaðamaður Fréttablaðsins knúði kaffiþyrstur dyra á akstri milli Reykjavíkur og Norðurlands.

„Við höfum þurft að laga okkur að faraldrinum. Til dæmis tókum við upp á því eftir stóra úrvinnslusóttkví að aka mat heim hér á bæina í kring. Bændur og aðrir tóku því mjög vel að fá heimsendar pítsur á þessum tíma og aðra rétti sem við bjóðum upp á,“ segir Agnes, en sumar matarferðirnar námu tugum kílómetra.

„Maður verður að finna lausnir,“ bætir hún við.

„Bændur og aðrir tóku því mjög vel að fá heimsendar pítsur á þessum tíma og aðra rétti sem við bjóðum upp á,“

North West stendur mitt á milli tveggja N1-skála, Staðarskála og á Blönduósi. Nokkur ár eru síðan aðstandendurnir tóku sig upp og fluttu frá Reykjavík norður í Húnavatnssýslu þar sem þeir umturnuðu Víðigerði sem áður var. Agnes segir að æ fleiri stoppi nú hjá þeim. Fólk sé ánægt með að þurfa ekki að láta sér duga sjoppufæði á löngum vegarkafla.

„Við fundum að það var ákveðið gat á þessari leið. Um leið og við fórum að bjóða upp á alvöru mat hefur orðið rosaleg aukning.“

En hefur hún heyrt að Húnavatnssýslur þyki enginn skemmtiakstur?

„Nei, ég hef bara heyrt að við séum langbesti hluti leiðarinnar,“ svarar hún að bragði.

Agnes segir að margt hafi komið sér á óvart þegar hún flutti af mölinni í Reykjavík og norður.

„Ég viðurkenni að ég var dálítið hrædd fyrst við að fara svona lengst út í sveit en hér er ég í meiri tengingu við náttúruna og allt mjög fínt.“

Agnes og félagar ætla að standa vaktina alla daga vikunnar fram í miðjan desember. Þá verður staðnum lokað tímabundið, en opnað aftur 7. febrúar næsta ár.

„Hvað ég ætla að gera í fríinu? Ætli við stefnum ekki bara að langri og góðri dvöl á Tene. Þá verður löng vinnutörn að baki og ætli okkur veiti nokkuð af góðu fríi,“ segir hún og hefur ekki meiri tíma fyrir spjall. Gestir bíða eftir matnum.