Maðurinn sem myrti fimm og særði tuttugu og fimm í skotárás á næturklúbbi í Colorado Springs í Bandaríkjunum um helgina hafði áður fyrr verið handtekinn fyrir sprengjuhótun. Tuttugu og tveggja ára gamall karlmaður, Anderson Lee Aldrich, ruddist inn á hinsegin skemmtistaðinn Club-Q vopnaður tveimur skotvopnum og hóf skothríð á gesti staðarins.

Anderson hefur áður fyrr komist í kast við lögin en hann hótaði móður sinni í júní 2021 með heimatilbúna sprengju. Nágrannar þeirra neyddust til að yfirgefa húsin sín á meðan lögreglan og sprengjusveitin sannfærðu Anderson um að gefa sig fram. Þrátt fyrir þessa uppákomu gat Anderson verslað sér hríðskotariffil sem hann er talinn hafa notað í árásánni.

Árið 2019 var byssulöggjöf Coloradofylkis breytt eftir skotárásina á kvikmyndahús í bænum Aurora. Colorado er nú meðal 19 fylkja í Bandaríkjunum sem leyfa dómurum að fjarlægja skotvopn af einstaklingi sem talinn er líklegur til að skaða sjálfan sig eða aðra. Dómari getur einnig bannað einstakling frá því að versla fleiri skotvopn í framtíðinni.

Aðgerðasinnar í Bandaríkjunum telja að lögin hafi brugðist í þessu tilfelli. Þeir telja óljóst hvort þessi ákveðnu lög hefðu getað stöðvað árásina, en segja lögreglan hefði allavega getað haft hann undir betra eftirliti.