Yfirskattanefnd hefur snúið við ákvörðun Ríkisskattstjóra um að hafna að einstaklingur sem keypti íbúð með foreldrum sínum mætti ekki nýta séreignasparnað sinn til að greiða inn á lánið. Nefndin tekur fram að ekki er sérstaklega bannað að kaupa íbúð með foreldrum sínum, svo lengi sem að skilyrði um 30 prósent lágmarkseignarhlut í íbúðinni væru uppfyllt.

Lög um fyrstu íbúðarkaup gera ráð fyrir að þau sem kaupa sína fyrstu íbúð geti nýtt sér séreignaðsparnað til að greiða inn á fasteignalánið. Voru lögin á sínum tíma flaggskip þáverandi ríkisstjórnar til að bregðast við aðstæðum á íbúðamarkaði og aðstoða fyrstu kaupendur að eignast sína fyrstu íbúð.

Einstaklingurinn sem kærði ákvörðun Ríkisskattstjóra keypti íbúð sína í maí árið 2017. Átti hann 85 prósent í íbúðinni á móti foreldrum sínum. Var beiðni hans um að fá að nýta séreignasparnaðinn hafnað, þar sem ekki mættu fleiri en tveir vera skráðir fyrir íbúðinni.

Í nóvember á síðasta ári afsöluðu foreldrarnir síðan eignarhlut sínum, og taldi viðkomandi að hann ætti því rétt á að fá að nýta séreignasparnað sinn þar sem hann væri einn skráður fyrir íbúðinni. Þeirri umsókn var einnig hafnað af Ríkisskattstjóra, og var sú ákvörðun kærð til yfirskattanefndar.

Í umsögn Ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar segir að matið á því hvort að skilyrði séu uppfyllt til að fá að nýta séreignasparnað sé bundið við það tímamark þegar íbúðin er keypt, þ.e.a.s. í maí 2017, en þá hafi skilyrðin ekki verið uppfyllt og því ekki hægt að veita leyfi til að nýta sparnaðinn til að greiða inn á lánið.

Yfirskattanefnd segir í úrskurði sínum að markmiðið með lögum um fyrstu íbúðarkaupa væri að styðja við kaupendur fyrstu íbúðar vegna hækkandi húsnæðisverðs. Benti ekkert til að tilætlunin með skilyrðinu um að ekki fleiri en einn væri skráður fyrir fasteign hefði ætlað að þrengja möguleika kaupanda til að ráðstafa séreignasparnaði sínum. Var því ákvörðun Ríkisskattstjóra snúið við.

Úrskurð nefndarinnar má lesa hér.