Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að erlendur karlmaður, sem grunaður er um kynferðisbrot, sæti áframhaldandi farbanni.
Maðurinn, sem kom hingað til lands í þeim tilgangi að eyða hér áramótunum, er grunaður um kynferðisbrot að kvöldi 1. janúar síðastliðinn. Maðurinn kom til landsins á gamlársdag og hugðist dvelja hér til 9. janúar.
Hann kynntist meintu fórnarlambi sínu á Tinder áður en hann kom til landsins, en samkvæmt úrskurði héraðsdóms var meint brotið framið í bifreið konunnar. Segir konan að maðurinn hafi þvingað hana til munnmaka og haft við hana samræði.
Maðurinn hefur neitað sök í málinu og kveðst hafa haft samræði og önnur kynferðismök við konuna með samþykki hennar. Í úrskurðinum er bent á að maðurinn hafi keypt flugmiða úr landi í skyndi þann 2. janúar síðastliðinn, daginn eftir meint brot.
Samkvæmt framburði vitnis var hann á leið út á Keflavíkurflugvöll þegar hann gaf sig loks fram við lögreglu sem þá hafði lýst eftir honum. Maðurinn er ekki sagður hafa gefið skýringar á því hvers vegna hann hugðist fara í skyndi af landi brott.
Héraðssaksóknari mat það svo að nauðsynlegt væri að maðurinn sætti áframhaldandi farbanni til að tryggja nærveru hans meðan málið er til rannsóknar og meðferðar hjá lögreglu og dómstólum.
Héraðsdómur tók undir þessi sjónarmið í úrskurði sem féll 28. febrúar og staðfesti Landsréttur úrskurðinn síðastliðinn fimmtudag, 2. mars. Verður maðurinn í farbanni áfram en þó ekki lengur en til 28. mars næstkomandi.