Hollywood leikarinn Kevin Spacey var yfir­heyrður af bresku rann­sóknar­lög­reglunni Scot­land Yard í Banda­ríkjunum í maí síðast­liðnum vegna á­sakana á hendur leikarans um kyn­ferðis­of­beldi, en frá þessu er greint á vef Varie­ty.

Á­stæðan er að Spacey er talinn við­riðinn sex kyn­ferðis­brota­mál í Bret­landi en sex menn hafa sakað hann um að á­reitt sig á árunum 1996 til 2013. Spacey var spurður spurninga en ekki hand­tekinn, að því er segir í svörum lög­reglunnar til banda­ríska miðilsins.

Spacey vann um ára­raðir í London og var meðal annars list­rænn stjórnandi í Old Vic leik­húsinu í London frá 2003 til 2015. Þetta eru ekki einu á­sakanirnar sem leikarinn stendur frammi fyrir en hann er meðal annars sakaður um að hafa kyn­ferðis­lega á­reitt tugi karl­manna í Banda­ríkjunum.

Leikarinn hefur ekki sést á hvíta tjaldinu síðan 2017 og voru at­riði hans í kvik­myndinni All the Mon­ey in the World meðal annars tekin upp aftur með Christop­her Plum­mer eftir að á­sakanir í hans garð fóru að hrannast inn. Í desember síðastliðnum gaf hann út einkar einkennilegt myndband á Youtube þar sem hann virtist koma sjálfum sér til varnar, í hlutverki Frank Underwood, persónu sinnar í Netflix þáttunum House of Cards.