Kevin Spacey segist ætla að mæta sjálf­viljugur fyrir dóm­stól í Bret­landi til að verja sig gegn fjórum á­kærum um kyn­ferðis­of­beldi sem birtar voru á hendur leikaranum í síðustu viku.

Tals­maður Spacey sendi banda­ríska þættinum Good Morning America yfir­lýsingu frá leikaranum í dag þar sem hann segist vera þess full­viss að hann muni sanna sak­leysi sitt fyrir dóm­stólum.

„Ég kann að meta yfir­lýsingu konung­lega ríkis­sak­sóknarans þar sem hann minnti fjöl­miðla og al­menning á að ég eigi rétt á rétt­látri máls­með­ferð og sé sak­laus þar til annað kemur í ljós,“ segir í yfir­lýsingu Spacey.

„Þótt ég hafi orðið fyrir von­brigðum með á­kvörðun þeirra um að halda á­fram með málið þá mun ég mæta sjálf­viljugur til Bret­lands strax og hægt er að gera ráð­stafanir og verja mig gegn þessum á­sökunum og er þess full­viss um að ég muni sanna sak­leysi mitt.“

Í yfir­lýsingu konung­lega sak­sóknarans sem Spacey vísar til fer Rosemary Ain­sli­e, yfir­maður sér­stakrar saka­mála­deildar, yfir á­sakanirnar gegn Spacey en um er að ræða fjögur meint brot gegn þremur mönnum.

Tvö at­vik eru sögð hafa átt sér stað í mars 2005 í Lundúnum gegn einum manni, þriðja at­vikið er sagt hafa átt sér stað í ágúst 2008 gegn öðrum manni og fjórða at­vikið er sagt hafa átt sér stað í apríl 2013 í Gloucester­skíri gegn þriðja manninum.

Gefið hefur verið út leyfi fyrir á­kærunum en Spacey þarf að gefa sig fram í Eng­landi eða Wa­les til að geta verið form­lega á­kærður.

Þá hefur önnur á­kæra gegn Spacey einnig verið heimiluð þar sem honum er gefið að sök að hafa neytt mann­eskju til kyn­ferðis­maka án sam­þykkis. Það er sagt hafa átt sér stað á sama tíma fyrr­nefnda at­vikið í Lundúnum í ágúst 2008.

Á­kvörðunin um að á­kæra Spacey var tekin á grund­velli sönnunar­gagna sem safnað var í rann­sókn lög­reglunnar í Lundúnum á meintum brotum Spacey. Í yfir­lýsingu sak­sóknarans segir Rosemary Ain­sli­e:

„Stofnunin minnir alla sem eiga hlut að máli að saka­málið gegn Hr. Spacey er í vinnslu og að hann hefur rétt á rétt­látri máls­með­ferð.“