Kötturinn Grettir hefur verið týndur síðan í júní en eigendurnir, Árný Ösp Aðalsteinsdóttir og Haraldur Þrastarson, segjast hafa heyrt af fegðum sem taki ketti í Mosfellsbæ og skilja þá eftir í Kjósinni. Árný ræddi við nokkra kattaeigendur og sagðist einn hafa séð mann skilja eftir kött í Kjósinni og keyra í burtu en aðrir telja að um sé að ræða flökkusögu og ekkert annað.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem dularfullt kattahvarf tengist máli ónefndra feðga en Vísir birti frétt árið 2014 þar sem fjallað var um svipað mál.

„Fólk er búið að heyra alls konar sögur um kattahvörf í gegnum árin, þetta mál virðist eiga sér 20 ára sögu, en enginn hefur tekið upp á því að rannsaka þetta frekar,“ segir Árný. Hún dreifði auglýsingablaði um kattahvarf í Mosfellsbæ fyrir nokkru að biðja fólk um að hafa samband við sig búi það yfir upplýsingum um þessi dularfullu kattahvörf.

„Frá því að við fluttum í Mosfellsbæ, fyrir sex árum síðan, hafa fimm kisur horfið úr götunni okkar,“ segir Árný og tekur fram að margt fólk hafi nú þegar sett sig í samband við hana um ketti sem horfið hafa sporlaust. Hún heyri alltaf sömu varnarorð um feðgana.

Árný segist ekki vita til þess hvort einhver hafi kært feðgana en að nokkrir kattaeigendur hefðu kvartað til bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ. Þeir geti þó ekki aðhafst neitt í því máli vegna skorts á sönnunargögnum.

Fréttablaðið hafði samband við bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar sem sögðust ekki hafa fengið neinar upplýsingar um þetta mál, hvorki umhverfisstjóri Mosfellsbæjar né dýraeftirlitsmaður. Þetta staðfestir Tómas G. Gíslason, umhverfisstjóri Mosfellsbæjar.

Hilda Allansdóttir vakti athygli á málinu á Kattavaktinni og sagðist einnig hafa týnt sínum ketti nýlega.

Íris Rut Þorgeirsdóttir týndi einnig sínum ketti fyrir nokkru. Hún segir í samtali við Fréttablaðið hafa einnig heyrt sögusagnir um feðga en segist ekki gruna þá sérstaklega. Hún bíði eftir að kötturinn hennar komi heim eða einhver hafi samband við hana.

Linda Rós Helgadóttir segir í spjalli á Kattavaktinni að gulbröndóttur köttur hafi dúkkað upp hjá mömmu hennar í Þingvallasveitinni, 20 mínútum frá Mosfellsbæ. „Alltaf spáð í hvernig hann komst þangað. Finnst gífurlega ólíklegt að köttur ferðist tugi kílómetra upp í sveit af sjálfsdáðum,“ skrifar Linda.