„Ketó er öfgakennd nálgun á lágkolvetnamataræði,“ segir Teitur Guðmundsson læknir, í samtali við Fréttablaðið. Þúsundir Íslendinga hafa skráð sig í íslenska ketó-hópa á Facebook og veitingastaðir eru farnir að bjóða upp á ketó-rétti á matseðlum. Teitur segir að ketó geti í sumum tilfellum hjálpað fólki verulega en fyrir marga sé óvarlegt sé að hella sér út í mataræðið án samráðs við lækni.

Teitur segir að heilbrigðisstarfsmenn hafi ekki farið varhluta af því „ketóæði“ sem gripið hafi Íslendinga. Það hafa apótekin heldur ekki gert. Sala á Ketostix, sem mælir ketóna í þvagi, jókst um 300 prósent í fyrra, samanborið við árið áður. Þetta kemur fram í svari Þórbergs Egilssonar, forstöðumanns rekstrarsviðs Lyfju, við fyrirspurn þess efnis. Ketostix eru vinsæl mælitæki hjá þeim sem eru á ketó, eða ketógenísku mataræði.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að nokkrir stórir matvælaframleiðendur hafa fundið fyrir óvæntri söluaukningu eftir tilkomu ketó-æðisins.

Teitur segist mjög hafa orðið var við áhugann á ketó í störfum sínum. „Ég held að allir læknar séu sammála um að það er aukning á áhuga á þessu mataræði. Þeir fá fyrirspurnir um þetta mataræði víða, svo sem á stofum og heilsugæslu,“ segir hann.

Sjá einnig: Söluaukning í kjöti ostum vegna ketó

Hann segir að þó mikil umræða hafi farið fram um málefnið hafi ekki verið mótað samræmt verklag hvað skuli gera þegar einstaklingur hefur áhuga á að breyta mataræði sínu. „Verklagið er ekki alveg ljóst; þ.e. fyrir hverja og undir hvaða formerkjum. Fyrir þá sem eru í ofþyngd getur þetta verið mataræði sem skilar árangri í upphafi; haft jákvæð áhrif og hjálpað verulega.“ Rannsóknir hafa stutt þetta. Þá er einnig verið að benda á ýmsa lífsstílssjúkdóma og bólguþætti.“ Hann ráðlegur þó fólki að leita til læknis áður en þetta er tekið upp, sérstaklega viðkomandi eru með einhverja undirliggjandi sjúkdóma. Einstaklingurinn sjálfur eigi oft erfitt með að meta slíkt.

Hann segir þó að heilbrigðum, sem taki engin lyf og glími ekki við neina sjúkdóma, ætti almennt ekki að stafa hætta af því að gera breytingar á mataræðinu í átt að lágkolvetnamataræði. Hins vegar séu pyttirnir víða; fylgjast geti þurft með blóðfitu, söltum, blóðsykri og insúlíni jafnvel, nýrnastarfsemi og fleiri þáttum.

Sjá einnig: Þorramatur hentar ketó nokkuð vel

Þeir sem stunda ketógenískt mataræði takmarka yfirleitt kolvetni mjög. Hugmyndin er að fá líkamann til að byrja að nota fitu og prótein sem aðalorkugjafa í stað kolvetna. Æskilegt er að um 5% orkunnar úr fæðunni komi úr kolvetnum, um það bil 20% úr prótínum og um það bil 75% úr fitu. Þessar tölur eru þó nokkuð breytilegar, eftir því hvaða „sérfræðingur“ heldur á penna.

Þeir sem eru á ketógenísku mataræði forðast í grófum dráttum vörur með sykri og hveiti, auk þess að sneiða hjá flestum tegundum ávaxta og neðanjarðargrænmetis. Uppistaðan í fæðunni verður kjöt, fiskur, ostar, smjör, kolvetnasnautt grænmeti og egg.

Spurður hvaða næringarefni þeir sem stunda ketó geti vantað nefnir Teitur nokkur vítamín. „Kjöt og fiskur er býsna verðmæt uppspretta vítamína og steinefna; svo sem járns og B12. Það grænmeti sem má borða og mjólkurvörur skapa engan augljósan næringarskortsvanda,“ segir hann „en það hefur verið rætt að bæta upp sölt vegna vökvataps í upphafi, fólinsýra, magnesíum, C vítamín og einnig B vítamín og D er í umræðunni.“

Sjá einnig: Fæðumst ekki nammigrísir

Teitur segir að ketó sé ekki hugsað sem langtímalausn heldur tímabundin og „öfgakenndari“ nálgun á lágkolvetnamataræði. Langfæstir sem mataræðið ástunda séu í raunverulegri ketósu; þar sem efnaskiptum líkamans hefur verið breytt verulega. Þeir sem því nái geti upplifað veikindi eða „ketóflensuna“ og slappleika þar til það gengur yfir. „En það getur líka verið merki um að eitthvað sé að og þá þarf að bregðast við.“

Teitur talar um ketó sem „æði“ enda sé þetta á allra vörum. Þetta sé hins vegar alls ekki versta æðið sem heltekið hefur Íslendinga, þegar kemur að mataræði. Fólk hafi náð árangri með því að minnka inntöku kolvetna. „Það getur verið nóg að hætta að borða sykur.“ Hann segir að margir hafi haft af því góðan ávinning að takmarka neyslu kolvetna; svo sem sykurs og annarra einfaldari kolvetna. Hann segist þó sjálfur aðhyllast meira jafnvægi í mataræði fólks. Ofþyngd geti skapast vegna fjölda annarra þátta, genetískra eða utanaðkomandi; svo sem álags og fleira. Þarmaflóra skipti líka máli, undirliggjandi sjúkdómar og lyfjagjöf svo eitthvað sé nefnt. 

„Það sem ég gagnrýni kannski helst við þetta er þegar þetta er boðað sem lausn alls kyns vandamála. Þetta getur verið hjálparhella og í lagi fyrir marga að beita þessu tímabundið. En það er mikilvægt að fólk sem hyggst fara alla leið fái aðstoð frá fagfólki.“