Sala Kjarnafæðis á sviðasultu er 50% meiri núna en hún hefur hingað til verið. Þetta segir Eiður Gunnlaugsson, stjórnarformaður fyrirtækisins. Sala á öðrum kolvetnasnauðum kjötafurðum hefur einnig aukist að sögn Eiðs. Sláturfélag Suðurlands, SS, finnur einnig fyrir aukningu í sölu á sviðasultu.

Lágkolvetnafæði og ketó-mataræði eru mjög vinsæl um þessar mundir. Í ketó felst að viðkomandi neytir um eða undir 20 grömmum af kolvetnum á dag. Það er ígildi þeirra kolvetna sem finna má í 100 grömmum af bönunum. Dæmi um matvæli sem ketó-liðar neyta eru feitar mjólkurafurðir, hreint kjöt, fiskur, olíur, egg og kolvetnasnautt grænmeti.

Sjá einnig: Sprenging í sölu á blómkáli vegna ketóæðis

Fréttablaðið hefur áður greint frá því að sala á blómkáli og brokkólí hefur stóraukist undanfarnar vikur og mánuði. Kolvetnasnauðir ostar rjúka einnig út eins og heitar, (kolvetnasnauðar) lummur.

Eiður hefur selt kjötafurðir í marga áratugi. Hann segir í samtali við Fréttablaðið að það sé svolítið skemmtilegt að upplifa það að vörur sem áður voru taldar óhollar skuli nú þykja af hinu góða. Hann nefnir egg, beikon og pylsur. „Í dag er þetta talið til ofurfæðis,“ segir hann léttur í bragði.

Sjá einnig: Ketóæði heltekur Íslendinga

Hann segir að ævintýralegar breytingar hafi orðið á neysluvenjum Íslendinga undanfarna áratugi. Hér hafi ekki fyrir svo löngu verið til ein tegund af pylsum og beikonneysla hafi varla þekkst. Þetta hafi gjörbreyst og áhrifin frá Evrópu séu augljós. Kjötiðnaðarmenn hafi lært frá löndum eins og Austurríki, Danmörku og öðrum Evrópulöndum.

Kjarnafæði hefur að sögn Eiðs einsett sér að framleiða vörur þannig að þær gangi ekki gegn manneldissjónarmiðum. Pylsur og ýmsar aðrar kjötvörur frá Kjarnafæði innihelda nánast engin kolvetni, ólíkt mörgum öðrum vörum á markaði.  Hveiti og sykur eru dæmi um mjög kolvetnarík innihaldsefni, sem ekki er að finna í þessum vörum Kjarnafæðis.  „Við höfum haft það sem móttó að reyna að taka tillit til allra sjónarmiða sem við höfum getað. Við höfum þróað framleiðsluna eftir manneldissjónarmiðum; til dæmis pylsur og álegg. Við reynum að hafa eins hreina vöru og við getum.“

Sjá einnig: Sökuaukning í kjöti og ostum vegna ketó

Eiður segir að augljós söluaukning hafi orðið að undanförnu á sviðasultu, áleggi sem og lifrarpylsu, sem inniheldur 16 grömm af kolvetnum í hverjum 100 og tilheyrir því ekki ketómataræði. Hann nemur líka aukningu í sölu á beikoni og öðrum hreinum kjötafurðum. „Aukining á sviðasultu er um 50% en aukningu á pylsum og áleggi um 5-10 prósent. Hann finnur líka fyrir söluaukningu í mínútusteikum og lambarib-eye, svo eitthvað sé nefnt. „Með öðrum orðum er fólk farið að neyta meira af hreinu kjöti og fitu.“

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands , segir við Fréttablaðið að söluaukningin á sviðasultu SS sé nálægt 20%. Söluaukning á öðrum kolvetnasnauðum vörum, svo sem pylsum, beikoni og hangiáleggi sé á bilinu 3-10%. „Það má því segja að ketó sé að auka kjötsölu og þó að grænmeti sé hollt þá er ekki litið hjá því að við erum rándýr í eðli okkar,“ segir hann.