Erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um helgina eftir að kórónaveirusmit kom upp í jaðarhópi. Mikil vinna fór í að reyna að ná til fólks sem talið er að hafi orðið útsett fyrir smiti og koma þeim í sýnatöku, sóttkví og einangrun.

„Það virðist vera komin einhver útbreiðsla í einn af jaðarhópunum hérna á höfuðborgarsvæðinu sem er erfitt fyrir lögreglu að ná til. Það sem við höfum verið að gera í samvinnu við rakningateymið og Landspítalann er að hafa samband við þá einstaklinga sem við teljum að séu útsettir,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn í samtali við Fréttablaðið.

Hann vildi ekki gefa upp hversu mörg smit væri um að ræða í þessum tiltekna hópi en hluti hans hefur ekki fasta búsetu. Fyrsta smitið greindist undir lok síðustu viku.

Veiti fólkinu aðstoð

„Eftir að þessi smit eru rakin þá er það alveg ljóst að það eru nokkuð mörg sem eru undir og við viljum gera allt sem við getum gert til að aðstoða ef þau eru orðin veik og hjálpa hinum að staðfesta að þau séu ekki veik en þurfi mögulega að sæta sóttkví.“

Þá hafi lögreglan boðið einstaklingum að dvelja í nýju farsóttahúsi sem opnað var á laugardag. Er það sérstaklega ætlað jaðarsettum hópum. Lengi hefur verið óskað eftir slíku úrræði að sögn Ásgeirs sem fagnar því að það standi nú þessu fólki til boða.

Leita allra leiða til að ná til þeirra

„Við höfum verið að hafa samband við félagahópana þeirra og reyna að hitta þá, bjóða þeim sýnatöku og reyna að útskýra fyrir þeim hvaða úrræði eru í boði og þá líka að reyna að upplýsa þau um það ef að þau eru útsett og eiga að vera í sóttkví, hvað það þýðir og svo framvegis,“ segir Ásgeir.

Hann bætir við að lögreglan leiti nú allra leiða til að ná til þessa hóps þar sem það sé mikilvægt að þau fái hjálp og njóti sömu aðstoðar og aðrir.

„Það þarf enginn að vera að berjast við þetta einn.“

Fréttin hefur verið uppfærð.