Píramídarnir í Egyptalandi teljast eitt af sjö undrum veraldar. Þetta voru grafhýsi faraóanna og byggðir úr kalksteini, sá fyrsti í kringum 2650 f.Kr.

Á Íslandi er fjöldi náttúrulegra píramída sem urðu til mörgum milljónum ára áður. Nægir þar að nefna Mælifell á Mælifellssandi, Suðurtind Hrútsfjallstinda og Kálfatinda á Hornströndum en einnig tinda með sama nafni á Ströndum í Árneshreppi. Þeir íslensku eru allir sérlega glæsilegir en eiga líka sameiginlegt að vera utan alfaraleiða og því flestum lítt kunnir.

Auðveldast er að nálgast Kálfatinda á Ströndum upp af Norðurfirði en þangað liggur 100 km bílvegur frá Hólmavík. Í Norðurfirði er skáli Ferðafélags Íslands með frábæru tjaldstæði en skammt frá er Krossneslaug sem bókstaflega liggur í fjöruborðinu. Kálfatindar eru ekki nefndir eftir kálfum heldur tröllkarli sem hét Kálfar. Átti hann að hafa falið gullkistur sínar í tjörn við hærri tindinn sem talinn var flatur.

Norðurfjörður liggur beint suður af Kálfa­tindum og þar er bæði skáli og frábært tjaldstæði. Mynd/TG

Þeir sem komið hafa á Kálfatinda vita hins vegar að þeir eru langt frá því að vera flatir efst og þar er því engin tjörn. Reyndar voru báðir tindarnir taldir algjörlega ókleifir þar til Freymóður Jóhannesson listmálari gekk á þá fyrstur í kringum 1920. Þetta er afar skemmtileg ganga og flestum fær, enda brekkurnar grónar alveg upp á topp. Efsti hlutinn er þó ekki fyrir lofthrædda, sérstaklega eystri tindurinn sem ekki rúmar marga samtímis.

Hægt er að hefja gönguna frá bænum Munaðarnesi en auðveldari uppgönguleið liggur frá Felli á austanverðu Krossnesi. Þaðan er gengið í suðvestur að norðurhlíðum tindanna. Útsýni af Kálfatindum er feykigott og sést alla leið norður að Hornströndum en einnig yfir Reykjaneshyrnu og áleiðis að Gjögri. Sama á við um Ingólfsfjörð og Ófeigsfjörð en sérstaklega þó Drangaskörð sem Þorvaldur Thoroddsen lýsti í ferð sinni á Strandir árið 1886: „Hvergi á Íslandi hef ég séð jafn hrikalegt náttúrusmíði.“

Kálfatindar eru tilkomumestir séðir úr Ófeigsfirði en myndin er tekin skammt frá fyrirhugaðri Hvalárvirkjun. Mynd/ÓMB

Vonandi verða Kálfatindar ekki útsýnisstaður yfir fyrirhugaða Hvalárvirkjun sem stendur til að reisa stutt frá og rústa mun stærstu ósnortnu víðernum Vestfjarða. Kálfatindar gætu nefnilega orðið Keopspíramídar Stranda og ásamt stórkostlegu umhverfinu tryggt íbúum Stranda ómældar tekjur af ferðamönnum – líkt og „kollegar“ þeirra í Egyptalandi en þá heimsækja næstum 15 milljónir árlega.

Ekki þyrfti nema lítið brot af þeim fjölda ferðamanna til að tryggja íbúabyggð á Ströndum, sem væri mun skynsamlegri lausn en virkjun sem ekki mun veita nein langtímastörf.

Virkjun á þessu svæði má líkja við að brytja niður Keopspíramídana og nota kalksteininn í nýbyggingar. Hverjum dettur slíkt í hug í dag?