Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að stefnt sé að því að kennsla á framhaldsskólastigi verði með hefðbundnum hætti í haust. Það er, að kennt verði á staðnum en ekki í fjarkennslu eins og þegar faraldurinn blossaði upp síðasta vor.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær eru skólastjórnendur framhaldsskóla óvissir um hvernig kennslunni verði háttað þegar starfsemi hefst í lok ágúst og búast allt eins við því að þurfa að grípa til fjarkennslu, að minnsta kosti að hluta.

Samkvæmt Lilju verður samráðsfundur með lykilaðilum í menntakerfinu á föstudag til að meta stöðuna og skipuleggja starfið út frá tilmælum sóttvarnalæknis, það er að 100 manns megi vera saman í hverju rými.

„Ég legg höfuðáherslu á að skólarnir geti hafist í haust. Á fundinum munum við ræða leiðir til þess að það geti gerst,“ segir Lilja. En Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur ekki sagt að loka þurfi skólunum, heldur halda sig innan reglnanna.

„Í síðustu viku byrjuðum við að ræða við okkar fólk, í menntakerfinu og hvað varðar menningarmálin, til þess að undirbúa veturinn og hvaða aðgerðir farið verður í til að styðja við menntakerfið og menninguna,“ segir hún.