Kennitöluflakkarar fá það óþvegið, nái frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðarráðherra fram að ganga. Drög að frumvarpinu eru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er kveðið á um að hægt sé að banna mönnum að reka fyrirtæki í allt að þrjú ár, með dómi, hafi þeir gerst sekir um að brjóta gegn 262. grein almennra hegningarlaga.

Þetta gildir um einstaklinga sem hafa gerst sekir um stórfelld skattalagabrot. Viðkomandi yrði bannað að stofna félag, sitja í stjórnum, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun fyrirtækja.

Samkvæmt frumvarpinu yrði hert á hæfisskilyrðum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra hlutafélaga, einkahlutafélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur. „Einnig er lagt til að sambærileg skilyrði og gilda um stjórnarmenn hlutafélaga og einkahlutafélaga gildi einnig um þá sem fengið hafa prókúruumboð í slíkum félögum og stofnunum.“

Einnig er lagt til að heimild ráðherra til að krefjast skipta á búum slíkra félaga, verði færð til hlutafélagaskrár.

Umsagnarfrestur er til 28. mars en umsagir verða birtar jafnóðum og þær berast. Markmiðið er að stemma stigu við misnotkun á hlutafélagaforminu og er kennitöluflakk í atvinnurekstri þar fyrst og fremst undir, að því er segir í samráðsgáttinni.