Fyrirspurnir til Stígamóta, frá karlmönnum sem óska eftir fræðslu um hvernig þeir geti tekið þátt í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, hafa aukist eftir að önnur bylgja #metoo hófst.

Hjálmar G. Sigmarsson, ráðgjafi hjá Stígamótum, fer fyrir námskeiðum fyrir karla, 18 ára og eldri, sem vilja taka virkan þátt í baráttunni.

„Þetta snýst um að gefa karlmönnum verkfæri til að taka þátt í umræðunni,“ segir Hjálmar. Á námskeiðinu er meðal annars farið yfir baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi og starfsemi Stígamóta, hvernig unnið er með brotaþolum og hverjar afleiðingar kynferðisofbeldis eru.

„Afleiðingar kynferðisofbeldis eru kjarninn í okkar starfsemi og það hversu mikilvægt það er að vinna með þær og skilja hversu margbrotnar og flóknar þær eru,“ segir Hjálmar. „Á námskeiðinu förum við meðal annars yfir það hvað vinna með brotaþolum felur í sér og hugmyndafræðina á bak við hana.“

Hjálmar segir að á námskeiðinu læri karlar hvernig taka megi þátt í umræðum tengdum kynbundnu ofbeldi. Svarið við því hvernig þeir geti tekið þátt í baráttunni sé þó misjafnt fyrir hvern og einn. Sumir leitist eftir því að fá verkfæri til að ræða kynbundið ofbeldi og #metoo í sínu nánasta umhverfi, við vini, ættingja og vinnufélaga en aðrir starfi á sviði þar sem mikilvægt sé að þekkja málaflokkinn vel til að sinna skyldum sínum.

„Einhverjir vinna til að mynda í stjórnmálum og vilja vita hvernig hægt sé að koma málefninu betur á framfæri og bregðast rétt við,“ segir Hjálmar. Hann segir umræðuna í kjölfar #metoo hafa orðið til þess að fleiri brotaþolar leiti sér hjálpar og segi frá ofbeldi sem þau hafi orðið fyrir, fleiri karlar vilji fræðast um það hvernig þeir geti tekið þátt í baráttunni gegn ofbeldi og að fleiri sem beiti ofbeldi leiti sér einnig hjálpar.

Fyrir síðastnefnda hópinn bendir Hjálmar á að meðal annars sé hægt að leita aðstoðar hjá Heimilisfriði og á vefsíðunni taktuskrefið.is.

„Þó að við séum að færast frá því að tala um það hvað brotaþolar geti gert til að koma í veg fyrir ofbeldi þá er það því miður ekki búið, en ef við ætlum að koma í veg fyrir ofbeldi þá verðum við að tala um gerendur og getum ekki horft fram hjá því að þeir eru flestir karlar,“ segir Hjálmar

„Hugmyndafræði námskeiðsins snýr að því að karlar taki umræðuna um kynbundið ofbeldi í sínu umhverfi, en segist ekki bara styðja baráttuna þegar konur heyri til. Við karlar þurfum að tala um þetta við aðra karla af því að þó að það sé erfitt að kyngja því þá er þetta karlavandamál, við berjumst gegn ofbeldi gegn öllum kynjum, en við getum ekki horft fram hjá þessari kynjaslagsíðu, hún er bara of mikil,“ segir Hjálmar.

Næsta námskeið hefst laugardaginn 16. október og fer skráning fram á heimasíðu Stígamóta.