Eric Newman ýtti í síðustu viku úr vör nýju net­nám­skeiði um akstur á Ís­landi á ensku. Hægt er að nálgast ellefu kennslu­stundir í akstri um Ís­land í gegnum um­rætt nám­skeið sem kostar fimm dollara og fylgir sér­stakt próf með á­samt myndum af sér­ís­lenskum um­ferðar­skiltum.

Frétta­blaðið hefur áður fjallað um Eric Newman og fjöl­skyldu hans sem er frá Fíla­delfíu­borg í Banda­ríkjunum en þau stofnuðu árið 2017 vef­síðuna Iceland With Kids þar sem þau deila reynslu sinni af fjöl­skyldu­ferðum til Ís­lands. Þau gáfu síðan út sam­nefnda ferða­hand­bók í fyrra og segir Eric í sam­tali við blaðið að þá hafi hug­myndin kviknað að nám­skeiðunum.

„Ég skrifaði bókina og eitt af hlutunum sem ég hafði með í henni var kafli um hvernig á að aka á Ís­landi, allir hlutirnir sem ég vildi að ég hefði vitað og það voru 25 myndir af mis­munandi sér­ís­lenskum um­ferðar­skiltum,“ segir Eric. Hann segir að fjöldi fjöl­skyldna hafi haft sam­band og þakkað honum sér­stak­lega fyrir þennan hluta.

„Það heim­sækja auð­vitað þúsundir ferða­manna Ís­land á hverju ári og það eru ekki allir sem að skilja sum skiltanna,“ segir Eric. Hann segist hafa fengið hug­myndina að nám­skeiðunum þegar hann kom til Ís­lands í síðasta mánuði þar sem hann myndaði skilti fyrir næstu út­gáfu bókarinnar.

„Ég gaf nám­skeiðið svo út í síðustu viku og það eru allar nýjustu upp­lýsingarnar þar,“ segir Eric og vísar til að mynda til upp­lýsinga um Vaðla­heiðar­göng og Víkur­skarðið. „Það eru flestir sem hafa ekki hug­mynd um að það sé oftast hægt að sleppa göngunum og bíla­leigu­fyrir­tækin bæta stundum ofan á það sem fólk er rukkað í göngunum.“

Hér eru M-skiltin svokölluðu útskýrð í einu af myndböndunum í námskeiðinu.
Fréttablaðið/Skjáskot

Í mynd­böndunum eru tölvu­teiknaðar myndir af hinum ýmsum um­ferðar­mann­virkjum á Ís­landi, til að mynda af hring­torgum og ís­lensku ein­stefnu­brúnum svo­kölluðu.

„Þetta nám­skeið í rauninni tekur á öllum þeim upp­lýsingum sem ég hefði viljað vita sjálfur í fyrsta sinn sem ég kom. Og ég vonast til þess að gera um­ferðina öruggari fyrir alla með þessu, ferða­menn og heima­menn,“ segir Eric. „Ég hafði til dæmis aldrei séð M-skiltin svo­kölluðu sem eru í sumum göngum, sem segja að maður þurfi að víkja fyrir um­ferð á móti.“

Hann segist vonast eftir því að nám­skeiðið geti hugsan­lega orðið að sam­starfs­verk­efni ferða­þjónustu­aðila á Ís­landi, það væri að minnsta kosti frá­bært að geta boðið upp á það frítt, til að mynda í gegnum bíla­leigur. Að síðustu tekur Eric fram að hann taki fagnandi öllum ábendingum um það sem betur megi fara í efnistökum námskeiðsins en netfangið hans er eric@icelandwithkids.com.

Á vefsíðunni eru handhægar leiðbeiningar, meðal annars um séríslenskar reglur í hringtorgum.
Facebook/Skjáskot