Kennara við Ox­ford gagn­fræði­skólann í Michigan í Banda­ríkjunum hefur verið vikið frá störfum eftir að hafa út­skýrt fyrir nem­endum skólans hvernig á­rásamaður sem ný­lega myrti fjóra nem­endur hefði getað tekið fleiri líf.

Þann 30. nóvember síðast liðinn hóf hinn 15 ára gamli Et­han Crumbl­ey skot­á­rás í skólanum með 9 mm. byssu sem hann hafði fengið í snemm­búna jóla­gjöf frá for­eldrum sínum, byssuna keyptu þau á Black Fri­day út­sölu. Eins og fyrr segir létust fjórir í á­rásinn, átta særðust al­var­lega.

Et­han hefur verið kærður fyrir morð, líkams­á­rás, vopna­burð og hryðju­verk. For­eldrar hans hafa verið kærð fyrir fjögur mann­dráp af gá­leysi.

Kennarinn sem um ræðir hefur ekki verið nafn­greindur í banda­rískum fjöl­miðlum en er sagður hafa gengið allt of langt þegar hann ræddu málið við nem­endur. Þar á kennarinn að hafa út­skýrt fyrir nem­endunum hvernig Et­han hefði getað skapað truflun í skólanum og þannig náð að myrða fleiri. Til dæmis með því að kveikja á bruna­varnar­kerfi skólans.