Spennuþrunginn kennarafundur í grunnskóla á Suðurlandi sem átti sér stað í janúar 2016 var í brennidepli dómsmáls sem Landsréttur hefur nú dæmt í. Kennari sem var viðstaddur fundinn segir að mikið ósætti hafi verið á honum og að svo hafi verið sem „einhver bóla spryngi“.

Einn kennari var áminntur fyrir hegðun sína á fundinum. Í mars 2017 skrifaði kennarinn grein í svæðisblaðið þar sem hún fór hörðum orðum um skólastjórann. Í kjölfarið var henni sagt upp störfum.

Landsréttur dæmdi í gær sveitarfélagið Bláskógabyggð til að greiða kennaranum eina milljón krónur. Það var mat dómsins að skólastjórinn hafi verið vanhæfur til að segja kennaranum upp störfum.

Áður hafði Héraðsdómur Suðurlands sýknað sveitarfélagið. En samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafði úrskurðað að uppsögnin væri ólögmæt.

„Mér líður bara eins og mér sé nauðgað“

Lýsingar á umræddum kennarafundi er að finna í dómi Landsréttar. Á honum átti að ræða námsmat skólans, en svo virðist sem önnur umfjöllunarefni hafi verið tekin fyrir, líkt og samskiptavandi, vinnuálag á kennara, ákvarðanataka innan skólans, og brot á kjarasamningum.

Annar kennari, vitni í málinu, segir að á þessum fundi hafi kennarinn sagt: „Mér líður bara eins og mér sé nauðgað,“ og að sér væri kennt um að um að hafa ekki öskrað nógu hátt eða barið nógu fast frá sér.

Vitnið tók fram að sér þætti djúpt í árinni tekið að líkja aðstæðum við nauðgun, en bætti þó við: „nauðgun er ofbeldisglæpur og okkur leið eins og við værum beitt ofbeldi.“

Úr lopapeysunni yfir í glímugallann

Skólastjórinn sagði að á fundinum hafi kennarinn klætt sig úr lopapeysu sinni og sagst þurfa að „fara í glímugallann“. Þá hafi hún upplifað nauðgunarlíkingu kennarans þannig að hún væri sett í stöðu nauðgarans. Jafnframt sagði hún kennarann hafa sakað sig um einræðistilburði.

Fyrir dómi kannaðist kennarinn bæði við nauðgunarlíkinguna og að hafa sakað skólastjórann um einræðistilburði.

Líkt og áður segir birti hún síðan grein í svæðistímariti þar sem hún fór ófögrum orðum um stjórnunarhætti skólastjórans.

„Ég mun éta gras mér til lífsviðurværis í framtíðinni frekar en að vinna á vinnustað eins og þeim sem [skólastjórinn] stjórnar. Er ekki tímabært að þoku yfirhylmingar og þöggunar fari að létta hér?“ spurði hún til að mynda.