Kennari við grunnskólann á Egilsstöðum, sem hafði nýlega verið á skíðasvæði í einu af þeim fjórum héruðum Ítalíu sem kórónaveiran COVID-19 hefur komið upp, hefur nú verið settur í sóttkví heima hjá sér en þetta kemur fram í frétt RÚV um málið. Kennarinn mun halda sig heima í um fjórtán daga.
Embætti landlæknis mælti með því í gær að þeir sem hafa ferðast til héraðanna Piedmont, Lombardy, Veneto og Emilio-Romagna nýverið viðhafi sóttkví í fjórtán daga við komuna til landsins. Þá var mælt gegn ónauðsynlegum ferðum til héraðanna og fólk beðið um að fylgjast vel með fréttum um málið.
Að því er kemur fram í frétt RÚV barst forráðamönnum barna við skólann bréf frá skólastjóranum fyrr í dag þar sem greint var frá þessu en í bréfinu kemur fram að kennarinn sé frískur. Ekki er talið að hann hafi verið nálægt neinum sem smitaður er en líkt og landlæknir greindi frá hafa smit ekki komið upp á skíðasvæðunum í héruðunum.
Alls eru um 322 smitaðir á Ítalíu og hafa tíu manns látist af völdum COVID-19 en það sem hefur vakið sérstaka athygli er að ekki er hægt að rekja smit í landinu til Kína. Rúmlega 80 þúsund manns eru nú smitaðir um allan heim og er tala látinna 2,708.