Grunnskólakennarar samþykktu nýjan kjarasamning í dag með rúm 62 prósent atkvæða.

Samningurinn er nútímalegur og tekur mið af breytingum sem hafa orðið í samfélaginu eftir heimsfaraldur Covid. Formaður félags grunnskólakennara sem þetta spennandi tímamót; kjarasamningurinn endurspegli ákveðna framtíðarhugsun.

Mánaðarlaun hækka um 25 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. janúar síðastliðinn. Annar- og orlofsuppbót í júní og desember hækkar um tæpar 2500 krónur, upp í 96 þúsund krónur.

Grunnskólakennarar felldu síðasta kjarasamning í janúar. Þorgerður L. Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir mesta muninn á þeim samningi og þessum sem var samþykktur í dag sé trúverðugleikinn.

„Þessi samningur tryggir réttindi kennara þvert yfir landið. Skýr réttindamál eru komin í þennan samning og skrifað skýrum orðum,“ segir Þorgerður í samtali við Fréttablaðið.

Vinnuframlag ekki fast við staðsetningu og tíma

Samningurinn byggir á ákveðnum grunni úr samningaumhverfi kennara en tekur einnig mið af þeim stórfelldu breytingum sem hafa orðið í samfélaginu eftir faraldurinn.

„Samfélagið áttar sig á að vinnuframlag er ekki bundið við tiltekinn stað. Þessi samningur er á margan hátt nútímalegur með bæði staðbundnu og óstaðbundnu starfi og tryggir að sérfræðingar geti unnið sína vinnu á ólíkum stöðum og á öðrum tíma. Vinnan snýst ekki bara um hvað þú eyðir miklum tíma heldur hvaða verðmæti þú skapar,“ segir Þorgerður.

Hún tekur fram að kjarabaráttunni sem aldrei lokið. Réttindin séu tryggð í þessum samningi en aðra þætti þurfi að skoða sem varða launakjör.

Á kjörskrá voru 5.170 og atkvæði greiddu 3.610 eða 69,83 prósent. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er svohljóðandi:

  • Já sögðu 2.254 eða 62,44 prósent
  • Nei sögðu 1.161 eða 32,16 prósent
  • Auðir voru 195 eða 5,40 prósent