Fimm kennarar við Tónlistardeild Listaháskólan Íslands segja að með auglýsingu um embætti rektors sé farið „hressilega á svig við lög um háskóla“.

Þetta kemur fram í tilkynningu þar sem yfirskriftin vísar til þess að "rektorsslys" kunni að vera fram undan.

Segir á skorta í auglýsingu um stöðuna að nefnt sé að rektor skuli uppfylla kröfur sem háskólakennari á einu eða fleiri viðurkenndum fræðasviðum viðkomandi háskóla.

„Ekki er minnst á listrænan feril eða prófgráður,“ segir einnig.

„Í tilfelli Listaháskólans á að sjálfsögðu ekki að koma til greina annað en að rektorinn sé framúrskarandi fag- eða fræðimanneskja á sviði þeirra listgreina sem fengist er við í skólanum,“ segir í tilkynningunni.

„Stjórn Listaháskólans ætti að sjá sóma sinn í að auglýsa stöðuna á ný í samræmi við lög.“

Undir tilkynninguna, sem er nokkuð lengri en hér segir, skrifa Hildigunnur Rúnarsdóttir aðjúnkt í tónsmíðum og fræðum, Kolbeinn Bjarnason stundakennari, Peter Máté prófessor og fagstjóri hljóðfæraleiks, Sigurður Halldórsson prófessor og fagstjóri NAIP og Úlfar Ingi Haraldsson aðjúnkt í tónsmíðum og fræðum.

Fríða Björk Ingvarsdóttir hefur síðustu ár gegnt starfi rektors Listaháskóla Íslands.