Tillögum í borgarráði um að grunnskólakennarar í Reykjavík þyrftu ekki lengur að nota stimpilklukku í starfi var vísað frá í morgun.

Fulltrúar allra flokka samþykktu að leggja niður stimpilklukkur í grunnskólum á framboðsfundi með Kennarafélagi Reykjavíkur 9. maí í fyrra. Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, segir mjög sérstakt að tillagan hafi ekki verið samþykkt í ljósi fyrri yfirlýsinga. Hún lýsir vonbrigðum með niðurstöðuna.

Afstaða borgarfulltrúa er greinilega þverpólitísk, því tveir sjálfstæðismenn auk Sönnu studdu að kennarar losnuðu undan stimpilklukkunni, svokallaðri Vinnustund.

Sanna segir að klukkueftirlitið virki sem vantraust á störf kennara.

„Stilmpilklukka er ekki nauðsynleg til að halda utan um vinnutíma, hún er ekki rétt mælieining til að meta vinnuframlag," segir Sanna.

Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins, segir að tillaga um málið hafi komið frá Flokki fólksins. Tillagan hafi verið lögð fram í borgarstjórn en verið vísað til borgarráðs þar sem hún hafi verið felld í morgun. Sjálfstæðismenn hafi einnig komið með sambærilega tillögu.

Kolbrún lýsir líkt og Sanna yfir vonbrigðum með niðurstöðuna.