Hildur Ýr Ísberg, íslenskukennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð segir frá upplifun sinni sem framhaldsskólakennari á Covidtímum í opnu bréfi til Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Hún segir að menntakerfið þurfi heildrænar kerfislausnir en ekki að kennarar örmagnast úr álagi hver í sínu horni.

Gríðarlegt álag á kennurum

Hildur segir að í fyrri bylgju faraldursins hafi kennarar gripið boltann, kennt í beinni og klárað önnina í mjög breyttu skólastarfi allt með það fyrir augum að minnka áhrif á nemendur og þann skaða sem þau gætu orðið fyrir.

„Allt í einu voru kennarar orðnir ábyrgir fyrir því að nemendur féllu ekki brott úr námi út af ástandinu. Þetta var mjög skrítið og súrt ástand og álagið var ólýsanlegt. Ég vann fram á kvöld, dag eftir dag, viku eftir viku, líka eftir að kennslu lauk í vor og yfirferðin tók við. Á meðan voru börnin mín heima vegna heimsfaraldurs og verkfalla (í Kópavogi). Margir kennarar fóru seint í sumarfrí og komu þreyttir til vinnu í haust, ég þeirra á meðal."

Kennarar beri ekki ábyrgð á brotfalli framhaldsskólanema

Hún segir að haustönnin hafi farið furðulega af stað í tvöföldu kerfi en um leið og öndin var dregin léttar og kennarar hafi þorað að reyna að skipuleggja fram í tímann skall á samkomubann og lokanir. Hún segir að álagið sé gríðarlegt og kennarar finni að nemendum líði illa.

„Enn heyrast raddir um hvað skólar, stjórnendur og kennarar eigi að gera í brottfalli nemenda úr framhaldsskólum sem er raunverulegur ótti og raunveruleg áhætta. Við finnum að nemendum líður illa. Okkur líður líka illa. Álagið er mjög mikið, óvissan algjör og við öll alltaf að reyna að rembast við eins og rjúpan við staurinn að halda áfram," segir Hildur og heldur áfram.

„Ég er íslenskukennari. Ég held að ég sé góður kennari. Mér er annt um nemendur mína og ég næ oft góðum árangri. Mér finnst gaman að kenna og ég gef mig alla í mitt starf. En ég er EKKI meðferðaraðili, ég er ekki námsráðgjafi, sálfræðingur, brottfallssérfræðingur eða neitt slíkt. Ég get ekki borið ábyrgð á brottfalli nemenda. Ég get ekki spornað við því. Hvernig á ég að gera það? Hvað á ég að gera til þess að gera það? Og þrýstingurinn er óbærilegur vegna þess að ég VIL reynast nemendum mínum klettur í hafinu og höfn í storminum, ég VIL hjálpa þeim, vera til staðar fyrir þau, og gera það sem ég get fyrir þau."

Þá segir Hildur að hún sé með 130 nemendur og eðli málsins samkvæmt geti hún ekki gefið þeim öllum þetta allt, það sé ekki hægt og það sé að fara með kennara.

Heildrænar kerfislausnir svarið

Hildur segir að að það sé engin lausn að láta eins og það sé ekkert Covid-19. Það sé fyrirsjáanlegt að þetta ástand verði viðvarandi á næstu önn og þarnæstu.

„Við þurfum heildrænar kerfislausnir, ekki bara að örmagnast úr álagi hvert í sínu horni. Við þurfum að átta okkur á því að það sem samfélagið er að ganga í gegn um er langt frá því að vera eðlilegt, við þurfum að draga andann og hugsa hvað við getum gert til þess að gera okkur þetta bærilegra. Við sem samfélag, ítreka ég, ekki við sem einstaklingar."

Þá nefnir hún að aukafjárveiting til skóla gæti verið lausn, þannig að hver og einn skóli gæti fundið lausnir sem henta.

„Til dæmis með því að minnka hópa, gefa nemendum svigrúm til að taka færri áfanga, eða fleiri, ráða starfsfólk til að anna auknu álagi. Kostnaðurinn sem hefur fylgt þessari farsótt er umtalsverður en hann hefur ekki kostað skólana mikla peninga, held ég. Þú leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál. En okkur, kennara, nemendur og foreldra, hefur hann kostað tíma, heilsu og álag."

Opið bréf til Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Dreifið sem víðast. Kæra Lilja. Það er aldeilis sitthvað sem...

Posted by Hildur Ýr Ísberg on Friday, 16 October 2020