Kennarafélag Menntaskólans á Akureyri hefur skorað á mennta- og barnamálaráðherra, Ásmund Einar Daðason, að hefja umsóknarferli á ný við skipun nýs skólameistara skólans vegna vantrausts á núverandi skólanefnd.

Í tilkynningu frá ráðherra kemur fram að hann hafi, til að skapa sátt um málið, skipað sérstaka hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á sömu gögn frá umsækjendum og skólanefndin byggði umsögn sína á.

„Umsögn skólanefndar, hæfninefndar og erindi Kennarafélagsins verða meðal þeirra gagna sem horft verður til við skipun nýs skólameistara,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins og að ráðherra muni fara yfir þær ábendingar sem borist hafa um skólanefndina m.t.t. áframhaldandi starfa hennar.

Í tilkynningunni kemur enn fremur fram að ráðuneytið taki ábendingar Kennarafélags skólans alvarlega en vekur þó athygli á því að skólanefndir taki ekki ákvörðun um skipan heldur veita þær ráðherra lögbundna umsögn sem á að byggja aðeins á umsóknargögnum umsækjenda.

Fjallað var um málið á vef DV í gær og þar kemur fram að vantraust Kennarafélagsins megi rekja til formanns nefndarinnar en kennarar hafa sakað formanninn um að hringja í fólk til þess að hvetja það til að sækja um stöðu nýs skólameistara með vilyrði um ráðningu.

Í tilkynningu frá ráðherra kemur fram að hann hafi, til að skapa sátt um málið, skipað sérstaka hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á sömu gögn frá umsækjendum og skólanefndin byggði umsögn sína á.
Fréttablaðið/Kristján