Lagið Husa­vik úr kvikmyndinni Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga var í gær til­nefnt til Óskars­verð­launa sem besta frum­samda kvik­mynda­lagið. Ör­lygur Hnefill Ör­lygs­son, einn af skipu­leggj­endum um­talaðrar Óskars­her­ferðar Hús­víkinga, segir ekki ó­lík­legt að gull­styttan góð­kunna muni heim­sækja Húsa­vík ef lagið hlýtur verð­launin þann 25. apríl næst­komandi.

„Ég yrði nú ekkert hissa ef hann fengi að koma hér alla­vega í stuttan tíma. Þetta eru þrír laga­höfundar og ég er í miklu sam­bandi við einn þeirra, sem er reyndar aðal laga­höfundurinn af þessu lagi, og þeir náttúr­lega tóku strax eftir því hvað við vorum að gera og sendu okkur póst á degi tvö þegar við vorum búin að setja þessa her­ferð í gang og þakkaði bara kær­lega fyrir sig,“ segir Örlygur.

Höfundar lagsins eru þeir Fat Max Gsus, Rickard Görans­son og Savan Kot­echa en sá síðast­nefndi sagðist í gær vera mjög spenntur að heim­sækja Húsa­vík í við­tali við menningar­vefinn Vulture. Ís­lenska tón­skáldið Atli Örvars­son samdi kvik­mynda­tón­listina fyrir Euro­vision Song Con­test en sönglögin voru flest samin af sænskum og banda­rískum laga­höfundum.

Örlygur Hnefill Örlyggson, hótelstjóri á Húsavík, segist ekki myndu verða hissa ef Óskarinn fengi að kíkja til Húsavíkur.
Fréttablaðið/Aðsend

Will Ferrell og Rachel M­cA­dams flytja lagið á verð­launa­af­hendingunni

Ör­lygur segir Hús­víkinga mjög á­nægða með til­nefninguna enda sé þetta gríðar­lega stór kynning bæði fyrir Húsa­vík, sem og gjör­vallt Ís­land.

„Það eru bara allir gríðar­lega peppaðir, skulum við segja. Flestir hér í bænum gera sér náttúr­lega grein fyrir því hvers lags aug­lýsing þetta er fyrir okkur og allt að því ó­keypis líka. Það þýðir einn og hálfur mánuður þar sem lagið er í mikilli um­ræðu út í Banda­ríkjunum og svo er lagið náttúr­lega flutt á stóra sviðinu á Óskarnum,“ segir Ör­lygur en hefð er fyrir því að lögin sem eru til­nefnd til Óskars­verð­launa séu flutt sem skemmti­at­riði á verð­launa­af­hendingunni.

Það má því fast­lega gera ráð fyrir því að aðal­leikarar myndarinnar þau Will Ferrell og Rachel M­cA­dams muni flytja Husa­vik á­samt sænsku söng­konunni Molly Sandén á verð­launa­af­hendingunni sem haldin verður í Dolby leik­húsinu þann 25. apríl næst­komandi.

Húsvíkingar skipulögðu herferð til að hvetja Óskarsakademíuna til að tilnefna Husavik sem besta kvikmyndalagið.
Fréttablaðið/Aðsend

Rosa­legasta aug­lýsing sem nokkur staður á Ís­landi getur fengið

Gríðar­legur fjöldi fylgist með út­sendingu Óskars­verð­launanna á ári hverju. Árið 2020 voru fylgdust 23,6 milljónir Bandaríkjamanna með verð­launa­af­hendingunni sem þykir þó einn lægsti á­horf­enda­fjöldi undan­farinna ára en árið 2019 voru á­horf­endur um 29,6 milljónir. Sam­kvæmt Ör­lygi gæti þetta orðið ein stærsta land­kynning sem Ís­land hefur fengið.

„Bara í Banda­ríkjunum eru 25 milljón manns sem horfa á þessa út­sendingu, Óskarinn. Þeir eru ekki með tölur yfir allan heim en ég hugsa að það sé nú bara svipað ef þú horfir á allan heiminn, þannig þetta getur verið 50 milljón manns sem að horfa á Óskars­út­sendinguna. Þetta er rosa­legasta aug­lýsing sem að nokkur staður á Ís­landi getur fengið,“ segir Ör­lygur.

Þá er ekkert eftir nema að kross­leggja fingur og vona að Óskar­sakademían veiti Husa­vik stóra vinninginn 25. apríl.