Fimm merktir helsingjar lögðu af stað úr Skaftafellssýslum til vetrarstöðva á Skotlandi fyrir skemmstu. Fengu þeir nöfnin Eivör, Guðmundur, Guðrún, Stefanía og Sæmundur en hefð hefur skapast fyrir að sá sem styrkir senditæki fái að velja nafnið.

Fuglafræðingurinn Arnór Þórir Sigfússon hjá Verkís hefur merkt helsingja frá árinu 2017 í samstarfi við Náttúrustofu Suðausturlands, og fræðimennina Halldór W. Stefánsson og Carl Mitchell. „Helsingjar eru stofn sem er tiltölulega nýbyrjaður að verpa hér á landi, rétt fyrir 1990, og það var ekki mikið vitað um hann,“ segir Arnór. „Bróðurparturinn verpir á Grænlandi og fuglarnir hafa alltaf komið hérna við.“

Arnór Þórir Sigfússon, fuglafræðingur hjá Verkís.
Mynd/Aðsend

Helsingjum hefur fjölgað hérlendis

Helsingjum hefur fjölgað mikið hér á landi og er þá helst að finna í Skaftafellssýslum annars vegar þar sem þeir verpa og Húnavatnssýslum og Skagafirði hins vegar þar sem þeir fara um á vorin á leið til Grænlands. Flestir fara að vetri til eyjar undan vesturströnd Skotlands sem nefnist Islay en einhverjir til Írlands einnig og annarra staða í Skotlandi. Arnór segir marga íslenska farfugla fara til eða í gegnum Bretlandseyjar, það sé þeirra hlið til Evrópu.

Með senditækjunum er hægt að sjá staðsetningu, hæð, hreyfingar, beit og fleira. Eitt af því sem verið er að kanna er ásókn helsingjanna í ræktarland miðað við villtan gróður. Landeigendur hafa sums staðar kvartað yfir helsingjanum hvað þetta varðar. Helsingjar eru friðaðir í Skotlandi en þó er nokkuð skotið vegna ágangs í ræktarland. Ísland er eini staðurinn þar sem helsingi er veiddur í sportveiði og fagnar Arnór því að hið áðurnefnda fimm­eyki hafi lifað sumarið og haustið af til að fljúga suður. Það sé langt í frá sjálfgefið.

Með senditækjunum er einnig hægt að sjá hvort fugl sé lifandi eða dauður. „Ég hef sett senda á grágæsir og heiðargæsir í gegnum tíðina og það kemur fyrir að þær eru skotnar. Þá get ég séð hvar þær hanga utan á húsi, hringi og fæ sendinn til baka,“ segir Arnór. „Í eitt skipti var sendirinn skotinn í tætlur, annars hef ég fengið þá heila og getað notað aftur.“

Á von á þeim til Íslands í apríl

Arnór segir að upphaflega hafi verið lagt upp með að fylgjast með helsingjunum í fimm ár en þó hafa engin tímamörk verið ákveðin. Leitað hefur verið til fyrirtækja um stuðning en að hluta er verkefnið fjármagnað úr eigin vasa.

Á hann von á að þeir snúi aftur til Íslands í byrjun apríl. Megnið af stofninum, sem telur um 80 þúsund fugla, heldur þá til Grænlands en á bilinu tvö til þrjú þúsund pör verpa hér sem þýðir milli 10 til 20 þúsund fugla að hausti. Arnór segir að allir merktu helsingjarnir séu varpfuglar nema Guðmundur. Hann hafi verið gripinn í vor í hópi geldfugla. „Það kemur væntanlega í ljós í vor hvort hann sé kominn með fjölskyldu.“