Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir það alls ekki koma til greina að rífa hús við Reykjavíkurveg til að koma Borgarlínu að og meirihluti bæjarstjórnar sé sama sinnis.

„Það var skýr stefna mín í aðdraganda samgöngusáttmálans þegar lagt var til að Borgarlínan færi í gegnum Reykjavíkurveg, að á þessum kafla á veginum færi Borgarlínan í gegnum almenna umferð, eins og gert er ráð fyrir í Borgarlínuverkefninu að sums staðar verði gert. Sömu leið og Strætó fer í dag,“ segir Rósa.

„Skipulagshöfundum Vesturbæjarskipulagsins, arkitektum, fannst samt að það þyrfti að ávarpa þennan möguleika inni í greinargerð skipulagstillögunnar ef bæjaryfirvöldum framtíðarinnar snérist hugur. Það eru mistök að hafa látið þetta orðalag standa, að heimilt væri að fjarlægja tiltekin hús, því á okkar vakt verður það alls ekki lagt til og hef ég fulla trú á að aðrir bæjarfulltrúar í hvaða flokki sem er séu sama sinnis og verða vonandi til framtíðar.“

Rósa segir að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verði að vega og meta hvernig Borgarlínu verður best komið fyrir. Á flestum stöðum verða gerðar sérstakar akreinar. Lagt verður til í Hafnarfirði að fundin verði önnur útfærsla, til dæmis að Borgarlínan fari á stuttum kafla inn í almenna umferð.

Rósa tekur skýrt fram að gömlu húsin fari ekki neitt.

„Gömlu húsin, við Reykjavíkurveg og víðar, gera bæinn okkar að því sem hann er. Við viljum varðveita sérstöðu bæjarins, þar sem einstök hús með mikla sögu eru í forgrunni,“ segir hún. „Gömlu húsin eru sjarmi Hafnarfjarðar og við ætlum ekki að breyta því.“